03/07/2023

Hönnun vegar á milli Sisimiut og Kangerlussuaq

Hönnun vegar á milli Sisimiut og Kangerlussuaq
Vegur framhjá vatnsverndarsvæði í Sisimiut

Hönnun vegar á milli Sisimiut og Kangerlussuaq – verkfræðilegar áskoranir í óbyggðum Grænlands.

Á milli grænlensku bæjanna Sisimiut og Kangerlussuaq liggur tæplega hundrað og fimmtíu kílómetra langur slóði. Leiðin liggur öll norðan heimskautsbaugs og hefur svæðið, sem er að mestu ósnortið víðerni, verið mikilvægt veiðisvæði Inúíta í meira en fjögur þúsund ár. Slóðinn, sem er fær fjórhjólum að sumri til, var lagður árið 2020 en íbúar í Sisimiut vilja bæta um betur og fá veg sem er fær bílum árið um kring. Verkís hefur frá árinu 2021 unnið að hönnun malarvegar á milli bæjanna tveggja og felur verkefnið í sér fjölmargar áskoranir. Veghönnunin og aðstæður til vegagerðar er afar ólík þeim verkefnum sem teymið hefur áður sinnt.

Bærinn Sisimiut er sá næstfjölmennasti á Grænlandi með um 5.600 íbúa. Höfn bæjarins er sú nyrsta í landinu þar sem ísalög hamla ekki siglingum á veturna. Sjávarútvegur er stærsta atvinnugreinin í Sisimiut og hafa íbúar þar lengi rætt um að fá veg til Kangerlussuaq og þannig átt möguleika á að flytja út fisk í gegnum alþjóðaflugvöllinn sem er þar staðsettur. Vegurinn mun einnig opna aðgang ferðamanna að svæðinu, tengja saman íbúa sveitafélagsins og einfalda aðgengi vísindamanna að óbyggðum Grænlands.

Vegurinn yrði um 130 kílómetrar, eða sem samsvarar leiðinni á milli Reykjavíkur og Landeyjahafnar. Ferðalagið um grænlenska veginn væri þó talsvert frábrugðið ferðinni á Íslandi. Ekkert farsímasamband er langstærstan hluta leiðarinnar og það eina sem telja má til innviða á leiðinni eru veiðikofar, tjaldbúðir og einn kamar með stórkostlegu útsýni. Skammt frá fyrirhuguðum vegi liggur Artic Circle Trail, fræg gönguleið sem er ein sú afskekktasta í heiminum og þarf að taka tillit til hennar við legu vegarins.

Hönnun vegar á milli Sisimiut og Kangerlussuaq
Útikamar við Fyrsta fjörð, austan við Sisimiut.

Að leggja veg um sífrera

Aðstæður til vegagerðar eru fjölbreytilegar og töluvert flóknar. Fara þarf yfir fjöll og hæðótt landslag upp í 500 m hæð, sprengja þarf klappir og skeringar og verður þörf á að opna fleiri námur á vegleiðinni til að vinna efni til vegagerðar. Lítið er um laus jarðlög sem teljast hentug og verður því efnisvinnsla töluvert stór þáttur við framkvæmdir, jafnvel umfangsmeiri en sjálf vegagerðin. Að mestu leyti skiptast á klappir og blautur jarðvegur og er sífreri í jörðu sem veldur því að efsta lag jarðvegsins er á sífelldri hreyfingu. Sífreri myndast á svæðum þar sem frost helst allan ársins hring í jörðu og á sumrin þiðnar efsta lag jarðvegarins þannig að jarðvegurinn verður mjög blautur og sígur. Sífrerinn hörfar nú hratt við hlýnun jarðar og felur það í sér að miklar breytingar í yfirborðslögum á heimskautasvæðunum.

Hægt er að beita ýmsum ráðstöfunum við gerð undirstaða fyrir vegi byggða á sífrerasvæðum, til dæmis með því að skipta út frostnæmu efni með grófri möl eða einangra efsta lag jarðvegs, en slíkar aðgerðir eru mjög kostnaðarsamar. Við hönnun og gerð áætlana þarf því að ákvarða jafnvægi á milli kostnaðar við framkvæmir og viðhalds. Vegna legu vegarins og aðstæðna er þó ljóst að gera má ráð fyrir verulegu árlegu viðhaldi til að halda honum færum.

Fleiri áskoranir eru einnig í vegi, svo sem vatnsverndarsvæði við upphaf vegarins við Sisimiut, brattar hlíðar sem þarf að skera í hlykki, snjóflóða- og skriðuhætta og ekki síst veiðitímabil. Allt hlutir sem eru töluvert flóknari þegar skortur er á innviðum og fjarlægð til bæja og byggðar er mikil.

Hönnun vegar á milli Sisimiut og Kangerlussuaq
Tjaldbúðir um 40 km frá Kangerlussuaq.

Einfaldar athafnir geta orðið flóknar á afskekktum svæðum

Haustið 2022 fór hópur frá Verkís og Svarma í vettvangsferð til Grænlands. Markmiðið var að starfsmenn Verkís söfnuðu gögnum um jarðfræðilegar aðstæður og skoðuðu hugsanlega veglínu til áframhaldandi hönnunar á meðan Svarmi gerða drónamælingar á um 25 km löngum kafla við Sisimiut. En sá hluti leiðarinnar er erfiðastur yfirferðar. Upphaflega stóð til að hópurinn frá Verkís færi á fjórhjólum eftir allri leiðinni en vegna mikillar úrkomu vikurnar á undan reyndist vestasti hluti slóðans ekki fær öðrum en gangandi. Einungis voru keyrðir 40 km á fjórhjólum frá Kangerlussuaq og gengin um 30 km leið frá Sisimiut, í nokkrum hlutum og oft fram og til baka. Í ferðinni kom einnig berlega í ljós hversu einfaldir hlutir verða flóknir þegar unnið er á afskekktum svæðum. Í ferðinni skiluðu ekki öll rafhlöðusett fyrir drónaflug sér til Grænlands og þurftu því starfsmenn að bera rafstöð á bakinu til að geta hlaðið rafhlöður á milli fluga, ekki hjálpaði að fjórhjólaslóðinn var hér ófær með öllu.

Áætluð er vettvangsferð í haust til þess að kanna nánar svæðið sem eftir stendur og framkvæma frekari rannsóknir með borunum til að kanna þykkt og gerð efsta hluta jarðlaga á sífrerasvæðunum. Einnig stendur til að drónamæla það sem eftir stendur til að leggja út nákvæmari veglínu. Það er því ósk þeirra sem standa að verkefninu að veðurguðirnir verði með í liði þetta árið en rigningarnar sem herjuðu á íbúa Sisimiut haustið 2022 voru þær verstu í manna minnum.

Hönnun vegar á milli Sisimiut og Kangerlussuaq er spennandi áskorun sem hönnunarteymið mun læra mikið af. Íbúar Sisimiut hafa beðið lengi eftir bættum samgöngum sem munu greiða leið þeirra að útflutningi, styrkja ferðamannaiðnaðinn á svæðinu ásamt því að einfalda vísindamönnum að rannsaka óbyggðir Grænlands.

Verkís er með starfsstöð í Nuuk á Grænlandi. Starfsmenn þar sinna fjölbreyttum verkefnum, oft í samvinnu við sérfræðinga á Íslandi. Íslenskir starfsmenn með áhuga á ævintýrum og framandi menningu hafa sumir sest að í Grænlandi um skemmri eða lengri tíma og unnið fyrir Verkís. Þau verkefni sem mest fer fyrir hafa verið á samgöngusviði, mannvirkjagerð og við orkuöflun.

Síðastliðin áramót urðu breytingar á rekstri Verkís í Grænlandi. Fyrirtækið, sem er staðsett í Nuuk, hafði fram að því verið í 50% eigu Verkís, var keypt að fullu af Verkís. Skipt var um nafn og heitir fyrirtækið í dag Verkís Grønland. Michael Karing tók við stöðu framkvæmdastjóra en í heildina eru starfsmenn fjórir.

Greinin birtist í 42. árgangi Upp í vindinn, blaði umhverfis- og byggingaverkfræðinema, árið 2023.

Höfundar:

Jóhann Örn Friðsteinsson

Jóhann Örn Friðsteinsson, jarðverkfræðingur á Samgöngu- og umhverfissviði Verkís

Davíð Thor Guðmundsson

Davíð Thor Guðmundsson, byggingarverkfræðingur og viðskiptastjóri á Samgöngu- og umhverfissviði Verkís

Lára Halla Sigurðardóttir

Lára Halla Sigurðardóttir, starfsmaður í kynningarmálum í viðskiptaþróunarteymi á Skrifstofu framkvæmdastjóra Verkís.

Heimsmarkmið

Hönnun vegar á milli Sisimiut og Kangerlussuaq
Vegur framhjá vatnsverndarsvæði í Sisimiut