11/12/2018

Hótel Saga

Hótel Saga
Hótel Saga

Nú á síðustu árum hafa miklar endurbætur átt sér stað á Hótel Sögu við Hagatorg. Verkís hefur séð um verkefnastjórnun og alla verkfræðihönnun þessarar uppbyggingar.

Verkís vann ástandsmat á Hótelinu árið 2014 og í framhaldi af þeirri skýrslu hófust viðamiklar endurbætur og endurnýjun á byggingunni.

Verkís hefur annast alla verkfræðiþjónustu tengda viðhaldi og endurbótum á sviði burðarvirkja, lagna-, vatnsúða og loftræsikerfa, rafkerfa, fjarskipta- og aðgangskerfa, lýsingarhönnun, hljóðvistarhönnun auk verkefnastjórnunar vegna framkvæmdanna.

Í ársbyrjun 2016 var skrifstofuhæð, á þriðju hæð norðurbyggingar, breytt og 27 ný herbergi útbúin þar. Verkís sá um hönnun og eftirlit. Í framhaldi af því verkefni var Verkís falið að hanna, verkefnisstýra og hafa eftirlit með endurnýjun neysluvatnslagna á hæðum 4, 5 og 6, (sem framkvæmt var samhliða uppbyggingu nýju herbergjanna á 3. hæð), uppgerð líkamsræktar í kjallara og uppbyggingu nýrrar kjötvinnslu í kjallara. Síðan hefur verkefnum fjölgað og er unnið markvisst að heildaruppgerð hótelsins í áföngum.

Á síðasta ári var Súlnasalur endurnýjaður ásamt fullkomnu eldhúsi en auk þess var nýtt bakarí útbúið inn af eldhúsinu. Súlnasalur er nú morgunverðarsalur hótelsins en er jafnframt leigður út fyrir ýmsa viðburði.

Á þessu ári hafa gagngerar endurbætur átt sér stað á gestamóttöku hótelsins á jarðhæðinni, sem er nú orðin björt og opin. Mímisbar var endurnýjaður og nýr veitingastaður opnaður. En að auki voru allir gluggar endurnýjaðar ásamt inngangshurðum.

Hótel Saga
Hótel Saga