Hreinsistöð Veitna á Akranesi tekin í notkun
Með hreinsistöðinni er
nú stigið stórt skref í umhverfismálum Akurnesinga. Fyrir uppbyggingu
fráveitunnar rann óhreinsað skólp út um átta meginrásir, nálægt fjöruborði. Nú
er skólpi veitt frá þessum útrásum og í hreinsistöð.
Uppbygging kerfisins
fól í sér, auk hreinsistöðvarinnar, uppsetningu á sex nýjum dælustöðvum og dælubrunnum sem dæla skólpinu frá gömlu
útrásunum í átt að hreinsistöðinni, nokkrum kílómetrum af nýjum lögnum á landi
auk 1,5 km sjólögn frá hreinsistöðinni. Stöðin hreinsar öll gróf efni úr
skólpinu auk þess að sía frá sand og fitu. Hreinsuðu skólpinu er því næst dælt
um hálfan annan kílómetra út í sjó.
Hönnun mannvirkisins
hófst árið 2006 og var smíði þess boðin út í áföngum 2007 og 2008. Árin 2008 –
2010 voru mannvirkin byggð, dælubrunnar settir niður og megnið af lagnavinnu
klárað. Erfið fjárhagsstaða Orkuveitu Reykjavíkur í kjölfar hrunsins varð til
þess að frekari nýframkvæmdum var frestað. Þráðurinn var tekinn upp aftur árið
2015 þegar lögð var lögn í sjó, lagnavinna var kláruð og uppsetning vélbúnaðar
hófst.
Verkís hefur frá upphafi verið aðalráðgjafi Orkuveitu Reykjavíkur/Veitna vegna framkvæmdanna.
Verkís óska Veitum og notendum til hamingju með áfangann.
Frétt Veitna: Bylting í umhverfismálum Akurnesinga – ný skólphreinsistöð
Frétt Verkís: Hreinsistöð tekin í notkun á Kjalarnesi
