11/05/2022

Ráðgjöf vegna húsasóttar og myglu

Hús í Reykjavík

Öll höfum við heyrt um fólk sem flúði fárveikt úr húsum sínum sökum myglusvepps sem fannst á duldum stað. Þannig geta öfgakennd tilfelli húsasóttar verið en hins vegar eru til dæmi sem fá enga athygli, s.s. röng lýsing, of hátt hitastig eða of lítill raki, sem geta leitt til minni afkasta og lífsgæða.

Ekki er til ein ákveðin skilgreining á húsasótt, hún fer eftir því hvort vitnað er í læknisfræði eða verkfræði.

Þó er hægt að sammælast um eftirfarandi skilgreiningu og hún inniheldur gríðarlega mikilvægar leiðbeiningar fyrir íbúa í leitinni að svari: Þegar íbúar húss (einn eða fleiri) hafa óæskileg líkamleg eða andleg einkenni/óþægindi sem má tengja dvöl í rými. 

Eftirfarandi atriði geta valdið húsasótt:

  • Röng lýsing
  • Léleg loftræsing og rangt rakastig
  • Röng hljóðhönnun
  • Léleg vinnuaðstða
  • Raki og aðstæður fyrir myglu/rakaskemmdir
  • Bygging með of hátt rafsegulsvið
  • Léleg þrif eða þrif með of sterkum efnum

Fyrirtæki
Hjá fyrirtæki sem þjáist af húsasótt má búast við að starfsmenn sýni eftirfarandi einkenni: Óútskýrð fjarvera, aukin veikindatíðni, minni afköst og starfsánægja sem getur leitt af sér háa starfsmannaveltu. Einnig hafa rannsóknir sýnt að of hátt hitastig minnkar afköst um allt að 20%.

Skólar
Börn eru viðkvæmari fyrir húsasótt en fullorðnir. Nágrannalönd okkar hafa tekið húsasótt misföstum tökum en Bandaríkjamenn eru til fyrirmyndar og bregðast mjög hratt við þegar húsasótt kemur upp í skólum. Niðurstöður rannsókna hafa sýnt að í skólum með húsasótt er mæting allt að 3% minni en einkunnir á bilinu 3-17% lægri.

Reikna má með að húsasótt sé tíðari á heimilum en annars staðar. Ástæða þess er margþætt. Íbúar geta verið seinir að átta sig á húsasóttinni, nauðsynlegar viðgerðir geta verið kostnaðarsamar og íbúar geta sýnt skeytingarleysi um viðgerðir. Oftast eru þó lausnir á vandamálum í íbúðarhúsum einfaldar, eins og losun raka úr rými, t.d. með því að opna glugga. Hér, eins og í nágrannalöndunum, er áætlað að um 20-30% af öllum byggingum þjáist af húsasótt.

Hvað er myglusveppur?

Þegar rætt er um myglu koma yfirleitt í hugann svartir blettir við kuldabrýr. En lífshringur myglu er flóknari en það. Svokölluð gró eða sporar eru alls staðar í andrúmsloftinu (í mismiklu magni þó), ef þeir lenda á röku yfirborði geta þeir byrjað að spíra og mynda myglu. Eftir því sem tíminn líður stækkar svo myglan (þ.e. sveppurinn vex). Upp af sveppaþráðum í myglunni vaxa gróberar og mynda myglugró sem geta fokið upp og lent á nýju röku yfirborði þar sem hringurinn endurtekur sig.

Timbur, veggfóður, málning, bólstruð húsgögn, bækur, gifsveggjaplötur o.s.frv. virka öll sem æti fyrir myglusveppi. Sumir myglusveppir framleiða eiturefni, mýkótoxín, sem eru hættuleg fólki og eru sum þeirra krabbameinsvaldandi. Sum þessara efna eru lofttegundir sem gufa upp úr myglusveppinum og af sumum finnst lykt, eins og fúkkalykt sem flestir þekkja. Flestar myglur sem spretta upp, t.d. eftir vatnsskaða, innihalda mýkótoxín og því er mikilvægt að bregðast hratt við.

Áhrif á líðan fólks

Einkennin eru mjög einstaklingsbundin en oftast flokkast þau sem ofnæmi, erting eða eitranir. Einkennin eru oftast tengd efri hluta öndunarvegar, t.d. astmi, erting í augum, stíflur í nefi, hósti, eða kvefleg einkenni. Í rannsókn á sjúklingum með þrálát, víðtæk einkenni kom í ljós að blanda af myglusveppum gæti haft slæm áhrif víða í líkamanum.

Helstu einkennin voru:
a) Frá taugakerfi: höfuðverkur, erfiðleikar við að muna, þvoglumælgi, svimi og máttleysi
b) Almenn vanlíðan: þreyta, uppþemba, útbrot, vanlíðan og vöðvakippir.
c) Í augum og öndunarfærum: óþægindi í nefi, hósti, rennsli úr augum, særindi í hálsi, þyngsli fyrir brjósti og mæði

Það skal þó taka fram að samkvæmt sænskum og finnskum rannsóknum virðist mygla vera frekar veikur ofnæmisvaki en aðeins um 2% af íbúum þessara landa hafa myndað mótefni gegn algengum og útbreiddum myglutegundum. Til samanburðar hafa um 30% ofnæmi fyrir pelsdýrum, rykmaurum eða frjókornum. Þeir sem hafa ofnæmi fyrir myglu hafa oftast einnig ofnæmi gegn þessum ofnæmisvökum.

Hvar koma vandamálin helst upp?

Þar sem raki, næring og rétt hitastig er fyrir hendi skapast aðstaða fyrir mygluvöxt. Því hærri sem rakinn er því hraðari verður mygluvöxturinn en yfirleitt er talið að þar sem hlutfallsraki er yfir 70-75% séu skilyrði fyrir mygluvexti. Flestir myglusveppir þurfa þó 80-85% hlutfallsraka. Vöxtur myglusveppa er einnig háður hitastigi og er kjörhitastig er um 25-30°C. Myglusveppir deyja flestir við 45-55°C en við kjörskilyrði getur mygla myndast á mjög skömmum tíma, jafnvel á einum sólarhring.

Hér eru nefndir nokkrir staðir þar sem mygla getur myndast og helstu ástæður tilgreindar.

Kuldabrýr:

  • Í hornum við gólf og loftplötur er einangrun oft lítil en við slík skilyrði getur raki fallið út og myglugró eiga auðvelt með að festast við vegginn.
  • Gluggar gráta vegna mikils rakaálags í rýmum og þar sem rakinn safnast saman myndast kjöraðstæður fyrir mygluvöxt. Oftast eru ofnar staðsettir undir gluggum til að hjálpa til við uppgufun, en mikilvægt er að þurrka vatnið jafnóðum og að draga gardínur frá á daginn til að tryggja uppgufun rakans.
  • Langvarandi uppsöfnun gróa og óáreittur vöxtur myglu á stöðum með mjög litla hreyfingu á lofti, t.d. á bak við skápa við útveggi.

Þakvirki:
Helsta hættan er þétting og að þar fylgjumst við síst með framgangi myglu. Næg útloftun er mjög mikilvæg.

Óupphituð kjallararými:
Hér er algengast að rakauppsöfnun og þétting komi frá aðlægum jarðvegi enda oft lítil loftun.

Gifs-/spónaplötuveggir:
Hér er mjög mikilvægt að fara rétt með efnin. Mygla getur myndast fljótt en er ekki sýnileg fyrr en hún er farin að valda verulegum óþægindum.

Rými með sérlega hátt rakastig (vot rými):
Hér er átt við baðherbergi, þvottahús og eldhús en mjög mikilvægt er að losa raka sem fyrst t.d. með loftræsingu, gufugleypi eða opnun glugga.

Er mygla hjá mér?
Fyrstu merki um myglumyndun er þung lykt sem reynist erfitt að losna við, þrátt fyrir útloftun. Hvort sem um er að ræða sprungur í steypu, flagnaða málningu, leka glugga eða galla í þaki er mikilvægt að vera alltaf vakandi fyrir viðhaldi á veðrunarkápu húsa. Stöðugt viðhald, kemur í veg fyrir óþarfa skemmdir og getur sparað stórar fjárhæðir til lengri tíma. Heil veðrunarkápa hindrar að byggingarefni mettist og skemmi út frá sér.

Næstu skref
Við hjá Verkís lítum á það sem okkar þjóðfélagslegu ábyrgð að taka forystu í málum sem tengjast húsasótt. Við höfum yfir að ráða sérfræðingum á öllum fagsviðum verkfræðinnar sem geta greint vanda og komið með tillögur að úrbótum. Við bjóðum upp á margs konar úttektir sem tengjast húsasótt og oft eru lausnirnar bæði einfaldar og ódýrar. Þegar kemur að heilsu fólks er ekkert verk það smátt að það verðskuldi ekki athygli.

Indriði Níelsson, viðskiptastjóri hjá Verkís, veitir frekari upplýsingar

Hús í Reykjavík