13/02/2024

Jarðkönnun í Grindavík

Heildar yfirlit yfir staðsetningu sprungna og jarðkönnunar rannsóknir. Sprungur eru merktar með gulu og appelsínugulu. Bláar línur eru götur sem búið er að jarðsjármæla. Bleikar línur eru götur þar sem búið er að túlka jarðsjárgögn. Grænar línur eru götur sem eru skilgreindar sem flóttaleiðir í bænum. Rauðasvæðið er afgirt hættusvæði.

Undanfarnar vikur hefur Verkís unnið að því að skoða sprungur og holrými í Grindavík og er búið að skoða um það bil helming bæjarins. Verkefnið er hluti af heildar áhættumati Almannavarna um öryggi Grindavíkur og er unnið í samstarfi við ÍSOR, Vegagerðina, Eflu verkfræðistofu og Háskóla Íslands.

Jarðkönnunar verkefnið felst í að auka öryggi þeirra aðila sem eru í verðmætabjörgun á svæðinu. Verkefnið snýst um að rannsaka og kortleggja sprunguhættu með það fyrir augum að tryggja aðgengi viðbragðsaðila og íbúa Grindavíkur. Markmiðið er einnig að útbúa aðgerðaráætlun sem tilgreinir staðlað verklag um hvernig staðið er að rannsóknum og viðgerðum þegar og ef nýjar sprungur ógna öryggi innviða og fólks á svæðinu. 

Yfirlit með hólfskiptingu.

Framkvæmd rannsókna hefur verið skipt niður í þrjá fasa:

Fasi 1 – Tryggja öruggt aðgengi viðbragðsaðila sem eru að sinna verðmætabjörgun.

Fasi 2 – Opnun Grindavíkur með áherslu á að hefja rekstur fyrirtækja.

Fasi 3 – Opnun Grindavíkur með áherslu á framtíðar bússetu á svæðinu.

Í fasa 1 og 2 er áhersla lögð á jarðkönnun á götum og vegum svo aðilar geti ferðast um bæinn.

Í fasa 3 felst jarðkönnun í heildar skoðun á bænum sem byggir á rannsóknum í fasa 1 og 2 en nær þá yfir öll opin svæði.

Reiknað er með að ljúka fasa 1 og 2 fyrir miðjan mars. Fasi 3 hefist ekki fyrr en í vor þegar snjóa leysir.

Ummerki um mögulegar sprungur. Gulir hringir eru lagnir.

 

Heimsmarkmið

Heildar yfirlit yfir staðsetningu sprungna og jarðkönnunar rannsóknir. Sprungur eru merktar með gulu og appelsínugulu. Bláar línur eru götur sem búið er að jarðsjármæla. Bleikar línur eru götur þar sem búið er að túlka jarðsjárgögn. Grænar línur eru götur sem eru skilgreindar sem flóttaleiðir í bænum. Rauðasvæðið er afgirt hættusvæði.