01/08/2019

Komum öll heil heim

Komum öll heil heim

Sex öryggispunktar fyrir verslunarmannahelgina.

Stærsta ferðahelgi ársins er framundan, sjálf verslunarmannahelgin. Að venju má búast við mikilli umferð um vegi landsins og fer hún að þyngjast þegar nær dregur helginni.
Mörgum liggur mikið á að komast í fríið, hefja skemmtun helgarinnar en við hvetjum vegfarendur eindregið til að hafa athyglina í lagi og þolinmæðina í fyrirrúmi. Á mánudaginn halda flestir heim og þá er mikilvægt sem aldrei fyrr að vanda sig í umferðinni.

Öryggisnefnd Verkís hefur tekið saman nokkur gagnleg ráð fyrir þau sem verða á faraldsfæti um helgina.

1. Gefðu þér góðan tíma til ferðarinnar
Þú verður líklega lengur á leiðinni en venjulega. Nýttu tímann til að spjalla við aðra í bílnum, syngja með útvarpinu eða hlusta á hlaðvarpið sem þú áttir alltaf eftir að hlusta á. Það er líka skynsamlegt að gera af og til hlé á akstrinum, fara út úr bílnum og teygja úr fótunum. Þá er líka nauðsynlegt að nærast vel á leiðinni.

2. Förum ekki fram yfir leyfðan hámarkshraða
og pössum bilið
Fylgjast þarf með hámarkshraða á hverjum stað og miða við aðstæður á hverjum tíma. Aftanákeyrslur eru með algengustu umferðarslysum og óhöppum hér á landi. Ástæður þeirra eru gjarnan að ökumenn hafa of lítið bil á milli bíla og athyglin á umferðinni er ekki nægjanlega mikil.

3. Notum viðeigandi öryggisbúnað
Við hvetjum þau sem ferðast með bíl eindregið til að nota bílbelti og þau sem ferðast á reiðhjóli að nota hjálm, sama hversu löng ferðin er. Hjólandi vegfarandi ætti að vera vel sýnilegur, með öflug og góð ljós og bjöllu. Mikilvægt er að bremsur séu í góðu lagi á bílum og reiðhjólum. Munið að hafa ullarteppi og skyndihjálparbúnað með ykkur í bílnum.

4. Höfum augun á veginum
Þegar verið að aka bíl er ekki rétti tíminn til að ná í eitthvað í hanskahólfið eða skoða nýjustu skilaboðin á Facebook. Símanotkun á hjóli getur verið varasöm og stöðva ætti hjólið áður en síminn er notaður.

5. Ökum ekki undir áhrifum áfengis, lyfja eða
annarra vímuefna

Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu er akstur undir áhrifum áfengis, lyfja eða annarra vímuefna ein af þremur algengustu orsökum banaslysa í umferðinni. Ætlar þú að drekka áfengi um helgina og keyra síðan heim? Vertu viss um að ekkert áfengi sé í blóðinu áður en haldið er af stað.

6. Viðbrögð á slysstað
Þegar komið er á slysstað á alltaf að nema staðar og veita slösuðum mönnum og dýrum þá hjálp sem unnt er að veita. Ef bíllinn er stöðvaður í vegkanti er sérstakrar aðgæslu þörf. Mikilvægt er að koma bílnum vel út í kant, kveikja á viðvörunarljósum, kveikja á stöðuljósum, setja viðvörunarþríhyrning upp í hæfilegri fjarlægð og fara í gult sýnileikavesti ef þess er kostur. Alvarleg slys hafa orðið á vegfarendum við vegkanta, gætum þess að vera ekki á milli bíla þegar öðrum bílum er ekið framhjá.

Komum öll heil heim.

Fyrir hönd öryggisnefndar Verkís,
Eiríkur Þorbjörnsson.

Komum öll heil heim