Margar nýjar lausnir við hönnun Aðaltorgs
Margar nýjar lausnir við hönnun Aðaltorgs. Hótelið Aðaltorg, sem er hluti af Courtyard-keðju Marriott, reis á einu og hálfu ári og nú standa 150 herbergi tilbúin til að taka á móti gestum. Verkís sá um alla verkfræðihönnun byggingarinnar og ráðgjöf.
Verkkaupi segir að vegna þess að húsið er sett saman úr einingum hafi Verkís þurft að koma með margar nýjar lausnir og allt hafi gengið upp.
Fjallað var um verkefnið í Víkurfréttum og Suðurnesja Magasíni VF. Um er að ræða staðsteypta jarðhæð og lyftukjarna. Herbergin 150 tilbúin komu í stáleiningum með flutningaskipi. Einingarnar voru settar upp á nokkrum dögum og undanfarna mánuði hefur lokafrágangur staðið yfir.
Ingvar Eyfjörð, sem fer fyrir fasteignaþróunarfyrirtækinu Aðaltorgi sem byggir hótelið, segir í samtali við Víkurfréttir að verkið hafi gengið vel og hópurinn sem hafi gert bygginguna að veruleika hafi verið þéttur og góður. Með hefðbundnum byggingaraðferðum hefði verktíminn verið tvö til tvö og hálft ár en hótelið hafi verið byggt á einu og hálfu ári.
„Verkís sá um verkfræðihönnunina, það hefur allt gengið upp. Þetta var mikið öðruvísi út af einingalausninni þá þurfti að koma með margar nýjar lausnir inn í þetta þannig að þeir stóðu sig alveg glimrandi vel,“ sagði Ingvar meðal annars um þátt Verkís í Aðaltorgi.
Fyrsta skóflustungan að hótelinu var tekin 19. júlí 2018. Það er hluti af Courtyard-keðju Marriott en sú keðja rekur yfir þúsund hótel um allan heim. Byggingaraðili hótelsins er fyrirtækið Aðaltorg ehf. í Reykjanesbæ.