15/03/2022

Með sjálfbærni að leiðarljósi við hreinsunaraðgerðir á Hofsósi

Hreinsunaraðgerðir Hofsósi
Hreinsunaraðgerðir á Hofsósi

Umfangsmiklar aðgerðir hafa staðið yfir á Hofsósi að undanförnu í þeim tilgangi að hreinsa mengun vegna olíuleika sem varð þar fyrir rúmum tveimur árum. Í úrbótaáætlun sem Verkís vann fyrir N1 og var samþykkt af Umhverfisstofnun var meðal annars lögð til aðgerð sem hefur ekki verið notuð hér á landi til hreinsa mengun úr jarðvegi áður. Aðferðin hefur gefið góða raun erlendis.

Í desember árið 2019 var staðfestur leki í neðanjarðareldsneytisgeymi N1 á Hofsósi. Það var metið svo að alls hafði lekið um sex þúsund lítrar af bensíni. Geymirinn var aftengdur og tæmdur og í byrjun næsta árs vann Verkís frumrannsókn vegna mengunarinnar. Um sumarið var farið í hreinsunaraðgerðir en þrátt fyrir þær héldu íbúar á svæðinu áfram að finna bensínlykt.

Síðastliðið sumar framkvæmdi Verkís jarðvegssýnatökur til að kortleggja útbreiðslu og styrk mengunarinnar. Rannsóknir Verkís bentu til þess að mengunin væri ekki bundin í jarðveginum sem slíkum, heldur væri um að ræða mengun í jarðvegsloftinu vegna svokallaðra VOC-efna (þ.e. rokgjarnra lífrænna efna) en VOC-efni er efnaflokkur sem finnst m.a. í olíuefnum, leysiefnum og límefnum.

Mengunarmælingar á Hofsósi
Skjáskot/RÚV Mengunarmælingar á Hofsósi

Einn af eiginleikum VOC-efna er að gufa upp frá menguðum jarðvegi, verða hluti af þeim náttúrlegu jarðvegsgösum sem eru í jarðrakalaginu (lagið á milli grunnvatns og yfirborðs) og stíga upp til yfirborðsins. Því var ákveðið að fýsilegasti kosturinn væri að nota svokallað jarðvegssog fyrir hreinsunaraðgerðirnar en ekki hin hefðbundnu jarðvegsskipti.

Í kjölfarið vann Verkís úrbótaáætlun þar sem lagðar voru til hreinsunaraðgerðir, frekari rannsóknir og mótvægisaðgerðir.

Hreinsunaraðgerðir: Sog á menguðu jarðvegslofti og lífniðurbrot, mengaður jarðvegur fjarlægður.
Mótvægisaðgerðir: Sog á menguðu jarðvegslofti undan húsum, loftunaraðgerðir í húsum og þétting gólfplötu.

Hreinsunaraðgerðir

Sýni úr jarðvegi voru mæld og mengaður jarðvegur sendur til meðhöndlunar. Loftunarrörum var komið fyrir í botni skurða og uppi á yfirborði. Blásurum verður því næst komið fyrir á yfirborði og mynda þeir virkt sog til að auka loftskipti. Loftið sem kemur úr jarðveginum (jarðvegsloft) verður meðhöndlað með kolasíu áður en því er sleppt út í andrúmsloftið. Áætlað er að þetta sog á jarðvegslofti og lífniðurbrot taki um tvö til þrjú ár.

Hreinsunaraðgerðir á Hofsósi

Mótvægisaðgerðir

Jarðvegsloft verður sogað undan botnplötu húsa til að minnka styrk VOC-efna undir húsum. Yfirþrýstingi verður komið á innandyra með vélknúnu loftræstikerfi og þá verður gólfplata þétt til að koma í veg fyrir eða minnka líkur á að VOC-efni komist inn í húsin. Þetta á einnig að draga úr lykt innandyra sem hefur verið það sem íbúar kvarta mest undan.

Í janúar hófust umfangsmiklar úrbótaaðgerðir á Hofsósi vegna olíumengunarinnar (bæði hreinsun á jarðvegi og mótvægisaðgerðir fyrir húsin). Sérstakur hreinsibúnaður var settur ofan í jörðina og úttektir framkvæmdar á húsunum til að meta hvers lags loftunarbúnaður væri viðeigandi þar. Grafnir voru skurðir umhverfis þau hús sem urðu fyrir áhrifum mengunarinnar og í skurðina var settur sérstakur loftunarbúnaður sem á smá saman að hreinsa mengunina úr jarðveginum.

Mengunarmælingar á Hofsósi
Skjáskot/RÚV Mengunarmælingar á Hofsósi

Loftunarbúnaðurinn myndar virkt sog á jarðvegsloftinu upp úr jörðinni í gegnum kolasíur sem gleypa í sig lyktina. Mengunin var mæld jafnóðum og grafið var til að ákvarða lengd skurðanna. Sýni úr jarðveginum voru send til frekari rannsókna. Einnig verður settur búnaður í húsin sem á að hindra að loftmengun berist þar inn, mismunandi búnaður á milli húsa (mótvægisaðgerð)

Erla Guðrún Hafsteinsdóttir, doktor í umhverfis- og jarðefnafræði hjá Verkís og verkefnisstjóri verkefnisins, segir að úrbætur eigi ekki einungis við um hreinsunaraðgerðir sem slíkar, heldur eigi þær einnig við um aðra þætti sem geta bætt ástandið á svæðinu, þ.e. mótvægisaðgerðir. Erla segir þá þætti jafn mikilvæga og að hreinsa mengunina. Hreinsunaraðgerðir geti tekið nokkurn tíma og því sé mikilvægt að huga að mótvægisaðgerðum sem eru gjarnan fljótvirkari en hreinsunaraðgerðir og geta bætt ástandið á svæðinu á meðan hreinsunaraðgerðir eiga sér stað, þar á meðal ólykt.

Aðferðin sem Verkís lagði til og verið er að nota er mun sjálfbærari en það sem áður hefur tíðkast, þ.e. grafa og farga. Lögð var til aðferð þar sem mengunin er hreinsuð á staðnum í stað þess að keyra þurfi margar ferðir með jarðveg á vörubíl og áhersla lögð á að meðhöndla mengaðan jarðveg þannig að hægt verði að nýta hann en ekki farga.

Verkís hefur útbúið vöktunaráætlun í samræmi við fyrirmæli Umhverfisstofnunar og mun sjá um vöktun í tvö til þrjú ár hið minnsta, eða þann tíma sem talið er að hreinsunin muni taka.

Hreinsunarbúnaður settur í jörð og hús á Hofsósi | RÚV (ruv.is)

Um ráðgjöf Verkís á sviði mengunarmála

Heimsmarkmið

Hreinsunaraðgerðir Hofsósi
Hreinsunaraðgerðir á Hofsósi