27/09/2021

Merking grágæsa og helsingja

Merking grágæsa og helsingja
Gæsir með senditæki

Merking grágæsa og helsingja. Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur hjá Verkís, fylgist vel með grágæsum og helsingjum sem bera GPS-senda vegna fuglarannsókna.

Hann vill miðla til þeirra veiðimanna sem veiða merktar gæsir að hafa samband við hann (ats@verkis.is) eða tilkynna til Náttúrufræðistofnun Íslands.

„Nú gerist það á hverju ári að einhverjar merktu gæsanna er skotnar og ekkert við það að athuga. Forsendur sem við gefum okkur við gæsarannsóknir sem fela í sér merkingar eru að merktir fuglar og ómerktir hagi sér eins því við alhæfum um stofnana út frá niðurstöðum sem við fáum úr merkingum. Þannig viljum við hvorki að merktum fuglum sé hlíft sérstaklega né þeir skotnir sérstaklega heldur vonum við að þeir lendi bara tilviljanakennt í veiði. En ef það gerist að merktur fugl veiðist þá viljum við endilega vita af því. Sendarnir sem fuglarnir bera eru dýrir og ef við fáum þá í hendur þá geta þeir innihaldið mikilvæg gögn og oftast sleppa þeir óskemmdir þannig að við getum notað þá áfram og sett á aðra fugla.“

Sendarnir eru svokallaðir GPS/GSM sendar og eru á hálshring sem festur er um háls gæsanna. Hálshringirnir eru úr léttu plasti og eru prentaðir í þrívíddarprentara sem gerir það að verkum að þeir eru mjög léttir, eða um 19 -35 grömm. Sendarnir þurfa dagsljós til að viðhalda hleðslu svo best er að geyma þá úti.

Verkís hefur komið að merkingu grágæsa undanfarin ár og hægt er að fylgjast með ferðum þeirra hér : https://gps.verkis.is/gaesir21/.

Frétt mbl.is: Gæsategundir sýna ólíka hegðun.

Fréttir af gæsunum

Í sumar bættist í hópinn grágæsasteggirnir Dino sem er styrktur af Dino slf. og Marteinn sem er styrktur af Verkís. Báðir voru merktir á Þingvöllum

Nafnaskipti hefur orðið á unglingnum sem nú heitir Norðfirðingur eftir að Samvinnufélag útgerðamanna í Norðfirði ákvað að styrkja hann.

Aðrar grágæsir sem hafa verið merktar eru Stefnir styrktur af Landsneti og Þórð styrktur af Þór hf., báðir merktir á Þingvöllum.

Einn gassinn er frá Blönduósi, Jón Sigurðsson. Þrjár gæsir voru merktar í Svarfaðardal, þær Anna styrkt af Sýni ehf., Jónas í Hlað styrktur af Hlað ehf. og Hjördís styrkt af Skotvís.

Bendir ehf. hefur einnig veitt almennan styrk í gæsarannsóknir. Arnór vill þakka öllum styrktaraðilum ómetanlegan stuðning.

Verið er að vinna í að útbúa vefsjá sem sýnir ferðir helsingjanna og verður hún birt fljótlega ásamt upplýsingum um nöfn þeirra og styrktaraðila.

Helsingjamerkingarnar voru unnar af Verkís í samvinnu við Náttúrustofu Suðausturlands og við Carl Mitchell. Grágæsamerkingar voru unnar af Verkís í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands, NatureScot, Náttúrustofu Austurlands og Carl Mitchell.

Heimsmarkmið

Merking grágæsa og helsingja
Gæsir með senditæki