28/08/2020

Mikill áhugi fyrir rafrænum hádegisfundi um hleðslu rafbíla

Tinna Andrésdóttir fjallar um breytingar á lögum um fjöleignarhús
Tinna Andrésdóttir fjallar um breytingar á lögum um fjöleignarhús

Í gær, fimmtudaginn 27. ágúst, var haldinn rafrænn hádegisfundur í höfuðstöðvum Verkís. Fundurinn, sem bar yfirskriftina Lögin sem liðka fyrir rafbílavæðingu, tókst vel til og miðluðu þrír fyrirlesarar þekkingu og reynslu til áhorfenda.

Vegna sóttvarna voru aðeins örfáir í salnum en margir fylgdust með í beinni útsendingu eða horfðu á upptöku af fundinum að honum loknum.

Þegar fjárfest er í rafbíl þarf óhjákvæmilega að huga að því hvernig hlaða skuli bílinn; heima, í vinnunni, sumarhúsinu eða á öðrum stöðum. Mikilvægt er að hleðsluaðstaðan sé örugg og uppfylli kröfur um brunavarnir. Í fjöleignarhúsum hefur framkvæmdin oft strandað á því að nágrannar vilja ekki fara í framkvæmdina.

Í sumar samþykkti Alþingi aftur á móti breytingar á lögum um fjöleignarhús og nú er meginreglan orðin sú að ekki þarf samþykki annarra íbúa fyrir uppsetningu hleðslustöðvar og má segja að nú séu rafbílar boðnir velkomnir í fjöleignarhús. Og það sem meira er, nú er rafbílum í raun gert hærra undir höfði en öðrum bílum.

Á fundinum fengum við Tinnu Andrésdóttur, lögfræðing hjá Húseigendafélaginu, til að útskýra lagabreytingarnar á mannamáli. Þá fjallaði Haukur Grönli, aðstoðarslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu um brunavarnir og viðbrögð vegna bruna í bílum og Þórður Þorsteinsson, rafmagnstæknifræðingur hjá Verkís, fjallaði um hleðslulausnir fyrir heimilið og vinnuna. Lára Halla Sigurðardóttir sá um fundarstjórn en hún sinnir kynningarmálum hjá Verkís.

Verkís þakkar þann mikla áhuga sem fundinum var sýndur. Hér fyrir neðan er hægt að horfa á upptöku af fundinum.

https://youtu.be/t7MyZqGNJjs

Umfjöllun Bylgjunnar um fundinn
Umfjöllunar Rásar 2 um fundinn 

Það var fámennt en góðmennt í salnum vegna sóttvarna.

Tinna Andrésdóttir fjallar um breytingar á lögum um fjöleignarhús
Tinna Andrésdóttir fjallar um breytingar á lögum um fjöleignarhús