12/09/2023

Ný sundhöll í Bodø

Sundhöllin í Bodø

Á dögunum kom frétt í norska miðlinum Fremtidens Byggenæring um framkvæmd nýrrar sundhallar í Bodø sem áætlað er að taka í notkun í haust. Verkís kom að allri verkfræðihönnun og verkefnisstjórnun hönnunar ásamt dótturfyrirtæki sínu í Osló, OPV Consulting, sem og gerð útboðsgagna í verkefninu. Þá hafa fyrirtækin veitt ráðgjöf á framkvæmdartíma en þetta er þriðja sundhöllin sem Verkís tekur að sér að hanna í Noregi. Arkitektar eru Terje Grønmo Arkitekter í Noregi.

Sundhöllin, sem er um 5.300 m² að stærð og inniheldur 25m keppnislaug með tilheyrandi búningsklefum og áhorfendastúku, verður byggð saman við núverandi sundhöllina í Bodø og er markmiðið er að orkunotkun þessarar sameinuðu byggingar verði lægri en þeirrar aðstöðu sem er fyrir hendi í dag.

Eiríkur Steinn Búason, byggingarverkfræðingur og verkefnisstjóri verkefnisins frá Verkís, segir að verkefnið hafi verið krefjandi á margan hátt. Byggingartæknilega hafi þurft að tengja sundhöllina við núverandi mannvirki ásamt því að tengja og uppfæra hafi þurft að hluta til núverandi tæknikerfi sem fyrir voru. “Núverandi aðstaða var lokuð um tíma á meðan verktakinn framkvæmdi tengingu á milli nýja og gamla hússins. Skipt var um öll hreinsikerfi í núverandi byggingu áður en það var opnað aftur. Með því að endurnýja núverandi tæknikærfi næst fram aukin varmaendurnýting, bæði hvað varðar vatnsnotkun og hringrás laugarvatnsins ásamt loftræsikerfin sem skilar sér í hagkvæmari rekstri. Reynslan af því að hanna sundlaugar á Íslandi kom sér vel til þess að takast á við allar þær áskoranir í þessu verkefni.

 


Mynd: Terje Grønmo arkitekter

Í frétt Fremtidens Byggenæring segir Eiríkur einnig: „Að hanna aðstöðu eins og í Bodø er eitt af mest spennandi og krefjandi verkefnunum í þessum hluta verkfræðigeirans því sundhallarverkefnin fela í sér svo miklu meira en hönnun hússins sjálfs – þetta eru tæknilega krefjandi verkefni og við þetta bætist að byggingin er í raun viðbygging við sundaðstöðu sem þegar er til.“

Umhverfislegir þættir skipta auðvitað einnig miklu máli og sóst er eftir að verkefnið hljóti BREEAM vottun. Af grænum lausnum má benda á mikla notkun á viði, bæði sem framhliðarklæðningu, í súlur og þakvirki og einnig hljóðklæðningu innanhúss.

 

Sjá frétt í Fremtidens Byggenæring um verkefnið (fréttin hefst á blaðsíðu 108)

Heimsmarkmið

Sundhöllin í Bodø