22/10/2020

Ný þjóðarhöll fyrir handbolta og körfubolta

Ný þjóðarhöll fyrir handbolta og körfubolta
Nye Nidarohallen Kamparena LR

Ný þjóðarhöll fyrir handbolta og körfubolta. Verkís hefur að undanförnu tekið þátt í undirbúningsvinnu vegna nýrrar þjóðarhallar fyrir handbolta og körfubolta. Verkfræðistofan var fengin til þess að vinna greinargerð þar sem fyrirhuguðu mannvirki var lýst en það skal hannað eftir reglugerðum og stöðlum alþjóðlegra
íþróttasambanda með það fyrir augum að alþjóðlegir keppnisleikir geti farið fram í höllinni.

Þá var markmiðið að kostnaðargreina helstu þætti fyrirhugaðrar framkvæmdar og átta sig þannig á umfangi hennar. Horft var til líftíma byggingarinnar með það að markmiði að tryggja notagildi hennar til framtíðar og að halda rekstrarkostnaði í lágmarki.

Mennta- og menningarmálaráðherra skipaði starfshóp til þess að afla upplýsinga sem gerðar eru til mannvirkja sem hýsa alþjóðlega leiki og mót, auk þess að greina þarfir fyrir slíkt mannvirki hérlendis. Í skýrslu hópsins kemur m.a. fram að engin mannvirki á Íslandi uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til sérsambanda vegna alþjóðlegra keppna eða landsleikja í handknattleik og körfuknattleik. Til að uppfylla alþjóðlegar kröfur verður að byggja nýtt mannvirki.

Í skýrslu starfshópsins kemur fram að fyrsta val hópsins væri að sú þjóðarhöll sem fyrirhugað er að reisa verði staðsett í Laugardalnum. Sú staðsetning sem starfshópurinn hefur helst í huga er vestan við svæði Þróttar. Þar gæti mannvirkið fallið inn í landslagið auk þess sem aðgengi að húsi á þeim stað væri mjög gott og bílastæði séu fyrir hendi að hluta.

Verkís verkfræðistofa var fengin til þess að gera kostnaðarmat á byggingu mannvirkis ásamt því að leggja mat á rekstrarkostnað, þar sem mið var tekið af nýreistri íþróttahöll í Noregi sem tekur 8.600 manns í sæti.

Verkís áætlaði að byggingarkostnaður íþróttahallar sem tekur 8.600 áhorfendur sé um það bil sjö milljarðar króna að viðbættum virðisaukaskatti. Íþróttahöll sem tekur 5.000 áhorfendur myndi hins vegar kosta 6,3 milljarða króna að viðbættum virðisaukaskatti. Til viðbótar bætist hönnun, ráðgjöf, umsjón og eftirlit.

Við vinnu starfshópsins var haft að leiðarljósi að rekstrarkostnaður hússins væri sem minnstur, auk þess sem nýtingarmöguleikar þess væru sem mestir. Þannig gætu önnur sérsambönd ÍSÍ nýtt höllina til æfinga, sem dæmi ýmis konar bardagaíþróttir, danshópar og fleiri sambönd. Þá var gert ráð fyrir í frumhönnun hallarinnar að 12.000 manna tónleika gætu farið þar fram.

Ný þjóðarhöll fyrir handbolta og körfubolta
Nye Nidarohallen Kamparena LR