26/10/2022

Oddur er aldursforseti Verkís á Keflavíkurflugvelli

Oddur B. Björnsson, doktor í vélaverkfræði.

Oddur B. Björnsson, doktor í vélaverkfræði á Orku- og iðnaðarsviði Verkís, er aldursforseti teymisins sem kemur að stækkun Keflavíkurflugvallar. Hann hefur komið að hönnun flugstöðvarinnar frá byrjun, eða í 42 ár. Þessa dagana er unnið að þremur stækkunum og tekur Oddur þátt í öllum verkefnunum.

Oddur hóf störfum hjá Fjarhitun, einni af stofunum sem síðar urðu að Verkís, árið 1978. Þá var hann tuttugu og átta ára gamall og nýútskrifaður doktor í vélaverkfræði eftir fjögurra ára framhaldsnám í Edinborg. Tveimur árum síðar fór hann til Norfolk í Bandaríkjunum til að taka þátt í hönnun flugstöðvarinnar og fagnaði hann þrítugsafmælinu þar. Hönnun flugstöðvarinnar var samstarfsverkefni bandarískra og íslenskra arkitekta og verkfræðinga og var flugstöðin vígð í apríl 1987 eftir sjö ára hönnunar- og byggingarferli.

Verkefni Odds hafa verið á sviði lagna og loftræsingar ásamt verkefnastjórnun fyrstu áratugina. Í þeim verkefnum sem nú er unnið að, kemur Oddur einkum að hugmyndavinnu og forhönnun loftræsikerfa og kælikerfa, en aðrir sjá um útfærslu og verkefnastjórnun. „Ég legg línurnar varðandi lausnirnar sem eru svo hannaðar inn í bygginguna í Revit,“ segir Oddur.

Flugstöðin stækkað meira en þrefalt 

Byggt hefur verið við flugstöðina í mörgum áföngum til að mæta stóraukinni flugumferð og fjölgun ferðafólks. Í heild hefur flugstöðin stækkað meira en þrefalt frá vígslu hennar árið 1987. Næsti áfangi er stækkunin til austurs og síðan tenging við núverandi aðalbyggingu. Þar verður til nýtt miðrými og í framhaldinu verður rauði landgangurinn að suðurbyggingunni breikkaður. Þessu fylgir fjölgun landgöngubrúa og endurbætur verða á akstursbrautum og stæðum.

Keflavíkurflugvöllur var upphaflega gerður og rekinn af Bandaríkjaher og við uppbyggingu varnarliðsins á sjötta áratug síðustu aldar lenti flugstöðin í herstöðinni miðri. Þetta kom ekki að sök á meðan flugvöllurinn var einungis áningarstaður og umferð fremur lítil. Þegar millilandaflug íslensku flugfélaganna Loftleiða, og síðar Flugfélags Íslands, frá Reykjavík til Keflavíkur á sjöunda áratugnum var staðan önnur og borgaralegt flug stórjókst.

Það var því ljóst að leita þyrfti nýrra leiða og var ákveðið að byggja nýja flugstöð og athafnasvæði á nýjum stað. Það var samvinna íslenskra og bandarískra stjórnvalda til að skilja farþegaflug frá starfsemi varnarliðsins og greiddu Bandaríkin um tvo þriðju hluta heildarkostnaðar við framkvæmdina. Smíði flugstöðvarinnar þótti bera vott um mikinn stórhug en húsið var tæknivæddasta byggist sem reist hafði verið í landinu. Með tilkomu stöðvarinnar var í fyrsta skipti búið að aðskilja farþegaflug frá herflugi á Keflavíkurflugvelli.

Heimsmarkmið

Oddur B. Björnsson, doktor í vélaverkfræði.