18/08/2019

Sé hindrunum rutt úr vegi hættir fötlun að skipta máli

Sigþór viðtal Blindrafélagið gæðamál
Sé hindrunum rutt úr vegi hættir fötlun að skipta máli

Sigþór U. Hallfreðsson, iðntæknifræðingur hjá Verkís og formaður Blindafélagsins, segir að brúa þurfi bilið á milli skólagöngu og atvinnu. Það sé atvinnurekenda að skapa aðstæðurnar og gefa fólki tækifæri. Sjálfur er hann með 5-10% sjón og segir að hjá Verkís hafi honum verið búið starfsumhverfi sem hentar.

„Lengi var fyrst og fremst horft til þess að skapa okkar fólki störf í léttum iðnaði, svo sem á Blindravinnustofunni sem félagið starfrækir hér í Hamrahlíð 17. Það hentar mörgum en ekki öllum og með meiri og betri menntun okkar fólks þarf að hugsa þessi mál upp á nýtt og skapa störf fyrir blint og sjónskert fólk sem hefur lokið háskólaprófi. Brúa þarf bilið á milli skólagöngu og atvinnu. Það er atvinnurekenda að skapa aðstæðurnar og gefa fólki tækifæri. Fyrirstöður má yfirleitt fjarlægja og þegar hindrunum hefur verið rutt úr vegi hættir fötlun að skipta máli,“ segir Sigþór í viðtali við Sigurð Boga Sævarsson í Morgunblaðinu um helgina.

Blindrafélagið – samtök blindra og sjónskertra á Íslandi fagnar 80 ára afmæli á morgun, 19. ágúst. Tímamótanna verður meðal annars fagnað með hátíðarsamtöku á Hótel Hilton Nordica.

Sigþór fæddist með arfgengan hrörnunarsjúkdóm, afbrigði af Rentinitis Pigmentoa eða RP-sjúkdómnum, í sjónhimnu sem veldur meðal annars náttblindu og vaxandi sjónskerðingu eftir því sem árin líða. Sigþór sinnir aðallega gæðamálum hjá Verkís og segir hann að á vinnustaðnum hafi verið búið starfsumhverfi sem hentar.

„Árið 2007, þegar ég var 46 ára, hætti ég að keyra bíl, svo hætti ég að geta farið um hjólandi. Síðan bætist við óöryggi ef ég er gangandi í ókunnugu umhverfi og svona gæti ég haldið áfram. Í dag er ég með 5-10% sjón og hún hefur daprast hratt síðustu árin, eins og er eðli og afleiðing hrörnunarsjúkdóma. Ef bera skal til dæmis minnkandi sjón saman við sorgarferli er gangurinn þar sá að söknuðurinn og missirinn hefur upphaf uns fólk hefur aðlagast nýjum aðstæðum og lífið er komið í jafnvægi. En svo hefst þessi hringrás á ný þegar hrörnunin heldur áfram – og það er ég að glíma við,“ segir Sigþór.

Í dag eru um það bil 1.500 manns á Íslandi skráðir blindir eða sjónskertir hjá Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta og fólk með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Þar af eru um 700 skráðir í Blindrafélagið, en þar er miðað við fólk sem hefur minna en 30% sjón. Það er oftast fólk nokkuð við aldur, sem misst hefur sjónina vegna veikinda, þó orsakirnar geti verið ýmsar fleiri.

„Markmið með starfi okkar í félags- og réttindamálum miða að því að okkar fólk geti átt innihaldsríkt líf á eigin forsendum. Þar liggja undir grunnþættir eins og afkoma, menntun og atvinnumál. Viðeigandi ferðaþjónusta er mikilvæg til þess að þetta gangi eftir og aðgengismál, bæði í raunheimum og þeim stafræna, eru alltaf ofarlega á baugi,“ segir Sigþór einnig.

Sigþór viðtal Blindrafélagið gæðamál
Sé hindrunum rutt úr vegi hættir fötlun að skipta máli