Sidewind og Verkís
Sidewind og Verkís. Undanfarin misseri hafa Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra heimsótt spennandi íslensk nýsköpunarfyrirtæki. Í gær heimsóttu þau fyrirtækið Sidewind og skoðuðu láréttar vindmyllur sem að fyrirtækið hefur hannað. Verkís var með sína fulltrúa á staðnum þar sem mikið og gott samstarf hefur verið á milli Verkís og Sidewind.
Báðir ráðherrar sýndu verkefninu mikinn áhuga og ræddu við Sidewind og Verkís um mikilvægi þess að styðja við slík verkefni. Rætt var um verkefnið WHISPER sem bæði Verkís og Sidewind eru hluti af, en Verkís leiðir þetta samevrópska orkuskiptaverkefni sem hefur það að markmiði að draga verulega úr losun í skipaflutningum milli landa, iðnaði sem er ábyrgur fyrir um 2,5% af heildarlosun koltvísýrings í heiminum. Hægt er að fræðast meira um það verkefni hér
Einnig var rætt um mikilvægi þess að setja af stað alvöru þróunarverkefni á Íslandi, með þátttöku íslenskra aðila og íslenskri fjármögnun, þar sem verið er að prófa mismunandi tækni fyrir orkuskipti. Bæði fyrirtækin hafa áhuga á því.