17/05/2023

Sjálfbærniskýrsla Verkís fyrir árið 2022

Verkís hefur gefið út sjálfbærniskýrslu fyrir árið 2022.

Verkís skilaði nýlega sjálfbærniskýrslu fyrir árið 2022. Samhliða því voru upplýsingar um sjálfbærni í starfi Verkís uppfærðar. Þetta er í fimmta skipti sem Verkís skilar sjálfbærniskýrslu vegna sáttmála SÞ um samfélagsábyrgð (e. UN Global Compact)

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda dróst lítillega saman hjá Verkís á milli ára en losunarhlutfall vegna ferða starfsfólks jókst aftur á móti talsvert, eða um 55%. Hækkunin kemur til vegna minni heimavinnu en árin á undan og fjölgun starfsfólks en einnig að einhverju leyti vegna nýrrar aðferðar sem notuð er við útreikningana og tekur betur til losunar á vinnutíma.

Starfsfólki Verkís stendur til boða að gera fjarvinnusamninga og ferðast þannig sjaldnar til vinnu. Einnig stendur starfsfólki samgöngustyrkur til boða ásamt góðri aðstöðu til að geyma hjól á vinnutíma og aðgangur að búningsklefa. Verkís hefur gert samning við rafmagnshlaupahjólaleigu og getur starfsfólk notað slík hjól til sinna þarf erindum á vinnutíma og hefur starfsfólk einnig möguleika á að nota bíla í eigu Verkís sem flestir ganga að hluta eða að öllu leyti fyrir rafmagni. Einnig á Verkís tvö rafmagnsreiðhjól sem starfsfólki hefur staðið til boða að fá lánuð í ákveðinn reynslutíma til að prófa þann samgöngumáta til og frá vinnu.

Hátt í 200 starfsmenn Verkís, eða um 57% starfsmanna, tóku þátt í árlegri ferðavenjukönnun fyrirtækisins. Af þeim nýta um 145 manns aldrei almenningssamgöngur á leið sinni til vinnu. Af þessum 145 nota rúmlega 110 heldur ekki hjól, rafhjól, hlaupahjól og/eða rafskútu til og frá vinnu. Því starfsfólki sem nýtir sér vistvæna fararmáta hjá Verkís fer vissulega hægt fjölgandi en ljóst er að betur má en duga skal.

Vinna þarf ötullega að því að draga úr losun starfsfólks til og frá vinnu eins og kostur er á en því fylgir einnig heilsuefling fyrir starfsfólk. Í þessu samhengi má einnig nefna að Verkís hefur stefnt að því að árið 2030 muni 60% starfsfólks nota vistvænar samgöngur til að ferðast til og frá vinnu en samkvæmt uppfærðum upplýsingum á heimasíðu Verkís var hlutfallið 35% í fyrra.

Um sjálfbærni hjá Verkís.

Heimsmarkmið

Verkís hefur gefið út sjálfbærniskýrslu fyrir árið 2022.