12/11/2019

Sjóböðin á Húsavík hljóta nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar

Sjóböð GeoSea
Sjóböð GeoSea

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar í gær. Það voru sjóböðin á Húsavík sem hlutu verðlaunin í ár. Verkís sá um alla verkfræðihönnun, ráðgjöf og aðra vinnu á verktíma við gerð sjóbaðanna.

Sjóböðin á Húsavík voru opnuð síðla sumars árið 2018, en aðdragandinn var heldur lengri. Um miðja síðustu öld var borað eftir heitu vatni á Húsavíkurhöfða. Upp kom vatn, sem reyndist vera heitur sjór sem hentaði ekki til húshitunar. Í staðinn var komið fyrir gömlu ostakari, þar sem Húsvíkingar gátu baðað sig sér til heilsubótar við kjörhitastig. Á þessum grunni voru sjóböðin á Húsavík sett á stofn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar.

Þar segir einnig að sjóböðin hafi fengið góðar viðtökur og fengið afar jákvæðar umsagnir bæði innlendra sem og erlendra gesta og hafa verið áberandi á samfélagsmiðlum (#geosea). Eftir tilkomu sjóbaðanna er það mál manna að ferðaþjónusta á Húsavík hafi tekið stórt stökk upp á við, þar sem þau hafa reynst sterkur segull allt árið um kring. Þau hafa án efa einnig mikla þýðingu fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu í öllum landshlutanum. Það er fyrirtækið Sjóböð ehf. sem opnaði sjóböðin undir vörumerkinu GeoSea.

Verkís sá um alla verkfræðihönnun en í því fólst meðal annars hönnun burðarþols, lagna, lýsingar, rafstýringa sem og jarðvinnu, gatnagerð og gerð bílastæða.

Frétt SAF: Sjóböðin á Húsavík hljóta nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar

Sjóböð GeoSea
Sjóböð GeoSea