27/03/2024

Skóflustunga að nýrri fjölnota farþegamiðstöð Faxaflóahafna

Skóflustunga að nýrri fjölnota farþegamiðstöð Faxaflóahafna
© Faxaflóahafnir
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, stjórnarformaður Faxaflóahafna, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og Gunnar Tryggvason hafnarstjóri við skóflustunguna

Skóflustunga að nýrri fjölnota farþegamiðstöð Faxaflóahafna. Síðastliðinn föstudag tóku Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, stjórnarformaður Faxaflóahafna, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og Gunnar Tryggvason hafnarstjóri skóflustungu að nýrri farþegamiðstöð við Skarfabakka í Sundahöfn.

Verkís var upprunalega fengið til að standa að gerð þarfagreiningar fyrir verkefnið á meðan það var bara á hugmyndastigi. Í verkefni sem þessu eru fjölmargir aðilar sem hafa hagsmuni að gæta og í tengslum við gerð þarfagreiningarinnar var valin sú leið að safna saman sjónarmiðum þeirra hagsmunaaðila sem að verkefninu koma. Hagsmunaaðilarnir eru fjölmargir, en fundað var með öllum hagsmunaaðilum til að beisla væntingar og þarfir allir aðilar höfðu fyrir mannvirkið. Verkís stóð að þessari þarfagreiningu og setti fram skýrslu þar sem hagsmunaaðilagreiningin var sett fram ásamt drögum að húsrýmisáætlun og forsögn með tæknilegum upplýsingum, kostnaðaráætlun, LCC og tímaáætlun næstu skrefa verkefnisins.

Í framhaldi af ofangreindri vinnu tók við útboð – og sá Verkís um gerð gagna m.t.t. þarfagreiningar og stýrði vinnu dómnefndar. Format útboðs var „samstarfssamkeppni“ þar sem arkitektar, verkfræðingar og verktaki mynduðu teymi og tóku þátt í útboðinu saman. Þrjú teymi tóku þátt og skiluðu þátttakendur tillögu að  hönnun farþegamiðstöðvarinnar í samræmi við fyrirliggjandi tæknilýsingu/þarfagreiningu.

Val á vinningstillögu var í höndum tveggja dómnefnda. Önnur sá um að meta heildarlausn, innra skipulag og kostnaðarmarkmið tillagna en hin sá um að meta hæfni teyma til þess að taka þátt í samstarfi við Faxaflóahafnir um fullnaðarhönnun og byggingu mannvirkisins. Dómnefndirnar störfuðu óháðar hvor annarri þar sem gætt var nafnleyndar þátttakenda gagnvart nefndinni sem lagði mat á tillögurnar á meðan hin nefndin tók viðtöl við þátttakendur og lagði mat á hæfni teyma eftir svörum þeirra. Besta tillagan var sú tillaga sem mætti kröfum verkkaupa með bestu hlutfalli milli gæða hönnunarlausna, kostnaðarmarkmiðs og skipulagshæfni við samstarf, hönnun og framkvæmd verksins.

Skóflustunga að nýrri fjölnota farþegamiðstöð Faxaflóahafna
© Faxaflóahafnir
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, stjórnarformaður Faxaflóahafna, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og Gunnar Tryggvason hafnarstjóri við skóflustunguna