28/01/2021

Stækka Reykjanesvirkjun án þess að bora nýjar holur

Reykjanesvirkjun
Reykjanesvirkjun

Reykjanesvirkjun verður stækkuð úr 100 MW í 130 MW á næstu tveimur árum án þess að boraðar verði nýjar holur. Um 200°C heitur jarðhitavökvi sem fellur til við vinnslu fyrstu 100 MW er nýttur til raforkuframleiðslunnar. Verkís sá um alla verkfræðilega hönnun verkefnisins og verkefnastjórn á útboðshönnunarstigi verkefnisins.

Stækkunin byggir á þekktri vinnsluaðferð jarðvarmavökva til raforkuframleiðslu. Með nýrri gufuskiljutæki er hægt að vinna með yfirmettaðan jarðhitavökva og útfellingar sem eru óhjákvæmilegur fylgifiskur slíkrar vinnsluaðferðar.

HS Orka og Verkís, í samstarfi við Kemíu, þróuðu tilraunaverkefni sem sneri að því að beita nýrri gufuskiljutækni sem á að geta séð um að hvellsjóða jarðhitavökvann niður á lægri þrýstiþrep til að framleiða gufu.

Jarðhitavökvinn á Reykjanesi er yfirmettaður af kísli þegar hann fer niður í þrýstingi, sem veldur því að kísilútfellingar verða til í kerfinu. Gufuskiljurnar sem voru þróaðar í þessu tilraunaverkefni eru fyrstu sinnar tegundar og hafa það að markmiði að stýra því hvar kísilútfellingar verða í kerfinu. Þannig er hægt að stýra því þannig að þær hafi ekki neikvæð áhrif á rekstur orkuversins. Kísillinn sem fellur út er síðan hægt að nýta sem afurð í afleidda framleiðslu. Gufuskiljur sem verða smíðaðar fyrir stækkun virkjunarinnar munu nýta þessa nýju tækni en nú í fullri stærð.

Eimsvalar hverfla jarðvarmavirkjunarinnar á Reykjanesi eru kældir með 10°C sjó úr borholunum sem síast hafa í gegnum hraunlög. Við það hitnar þessi hreini sjór upp í um 40°C, sem svo er nýttur til fiskeldis við virkjunina. Þannig er og verður kælivarmi Reykjanesvirkjunar nýttur til atvinnuskapandi verkefna í Auðlindagarðinum á Reykjanesi, en slíkum varma er oftar en ekki fargað, t.a.m í kæliturnum.

Stækkunin um 30 MW mun ekki nýta allan þann 200°C heita vökva sem til fellur á Reykjanesi. Það sem eftir stendur verður nýtt til að knýja hitaveitu, sem veitir varma m.a. til fiskþurrkunar.

Fyrirtæki í Auðlindagarðinum á Reykjanesi nýta afgangsstrauma frá orkuverum HS Orku í Svartsengi og á Reykjanesi til fjölbreyttrar starfsemi sem skapa um 1.200 störf.

Umfjöllun Víkurfrétta um málið – myndband 
Frétt RÚV: Auka framleiðslu um 30 megavött án þess að bora meira 

 

Heimsmarkmið

Reykjanesvirkjun
Reykjanesvirkjun