28/08/2023

Sumarstarfsfólkið okkar kvatt 2023

Sumarstarfsfólk Verkís 2023

Þessa dagana hverfur sumarstarfsfólkið okkar hvert af öðru aftur til náms. Í sumar höfum við hjá Verkís notið góðs af starfskröftum fjölda sumarstarfsfólks, en þessi tuttugu og fimm manna hópur samanstóð af þrettán konum og tólf körlum. Þau hafa sinnt fjölbreyttum verkefnum og höfum við hjá Verkís verið þess heiðurs aðnjótandi að fá þetta duglega og skemmtilega fólk til liðs við okkur.

Fjögur þeirra, Hallgrímur Kjartansson, Hilmar Adam Jóhannsson, Ingibjörg Valgeirsdóttir og Linda Petrea Georgsdóttir, sögðu okkur frá störfum sínum í sumar og hvernig þeim þótti að vinna hjá Verkís.

Hallgrímur Kjartansson
Hallgrímur Kjartansson er með B.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá HÍ. Í haust mun hann halda aftur út til Danmerkur til þess að ljúka meistaranámi i í vélaverkfræði við DTU. Í sumar hefur hann starfað í vélbúnaðarhópnum á Orku og iðnaðarsviði.

„Ég hef aðallega unnið í tveimur verkefnum í sumar, annarsvegar fagþróunarverkefni fyrir Swiss Green Gas International og hinsvegar hef ég verið að hanna staðlaðar undirstöður undir pípur í Inventor. Ég hef einnig unnið að kostnaðaráætlun fyrir 15 km. CO2 gaslögn frá Svartsengi að Reykjanesvirkjun. Ég hef þess vegna unnið mikið í Excel, Inventor og Civil 3D. Ég hafði unnið mikið í Inventor áður og hafði gaman að því. Hinsvegar hafði ég enga reynslu af því að vinna í Civil 3D sem gat verið krefjandi, en þá gat ég hringt í samstarfsmann sem er mjög kunnugur á forritið og hann gat hjálpað mér að leysa vandamálið og útskýrði allt á auðskiljanlegan hátt á skömmum tíma.“

„Það sem stóð upp úr í sumar var m.a. viðburðurinn Verkísleikarnir, þar keppti starfsfólk sín á milli í ýmsum þrautum. Það var ótrúlega skemmtilegt. Einnig hefur staðið upp úr hvað það ríkir góður starfsandi hjá Verkís, fólkið er viðkunnanlegt. Það hefur verið gott að geta auðveldlega leitað til samstarfsfólks sem er kunnugt og getur veitt góð ráð. Það hefur kannski verið það sem hefur komið mér hvað mest á óvart, hvað allir hafa verið hjálpfúsir. Ég hef ekki alltaf upplifað það á vinnumarkaði, en hér voru allir til í að aðstoða mig öllum stundum.“

Hilmar Adam Jóhannsson
Hilmar Adam Jóhannsson er nemi í byggingartæknifræði við Háskólann í Reykjavík. Í sumar hefur hann starfað í lagna- og loftræsihópnum á Byggingasviði.

„Í sumar hef ég mest verið í flugvallarverkefnum, ég hef t.d. verið að hanna neysluvatnslagnir, frárennsli og loftræsingu fyrir Keflavíkurflugvöll. Ég lærði gríðarlega mikið á Revit og Autocad og ég veit að sú færni mun koma til með að nýtast mér ótrúlega vel, bæði í námi og á vinnumarkaði. Ég fékk frábæran mentor sem gat aðstoðað mig við allt, ég hef ekki ennþá lent í neinu sem hann gat ekki aðstoðað mig við, hann er ótrúlegur.“

„Það sem mér hefur þótt skemmtilegast í sumar eru vettfangsferðirnar, að sjá framvindu verkefna með eigin augum. Það var mjög gaman að fá að fylgjast með á verkstað og sjá hvernig verkefni verða að veruleika. Maður hefur oft verið að teikna verkefni í skólanum en aldrei fengið að sjá hvernig verkefnin koma út í raun.“

„Félagslífið hefur einnig staðið upp úr, það er geggjað, þetta er í raun og veru besta félagslíf sem fyrirfinnst. Viðburðirnir voru fjölbreyttir, Verkísleikarnir voru til dæmis ótrúlega skemmtilegir og það var líka frábært að fá tækifæri til þess að fara í pílu með sumarstarfsfólkinu. Það var sérstaklega skemmtilegt og þétti hópinn vel saman.“

Ingibjörg Valgeirsdóttir
Ingibjörg Valgeirsdóttir er nemi í tækniteiknun við Tækniskóla Íslands. Í sumar hefur hún starfað í veituhópnum á Samgöngu- og umhverfissviði.

„Ég hef verið að vinna í mjög mörgum verkefnum í sumar, þá aðallega hjálpað til við að laga teikningar, fara yfir þær og vistað þær í skjalavistunarkerfið okkar. Ég hef verið svolítið úti um allt og hef þess vegna fengið tækifæri til þess að aðstoða þvert á hópa. Ef mig hefur vantað verkefni þá hefur verið auðvelt að leita til þeirra sem ég þekki til og biðja um fleiri verkefni.“

„Það sem hefur komið mér mest á óvart er hvað maður lærir mikið á því að byrja að vinna við það sem maður lærði í skólanum. Maður lærir svo margt nýtt á skömmum tíma, sem ég veit að kemur til með að gagnast mér í náminu.“

„Það sem stóð upp úr í sumar er jákvæðnin og stafsandinn í fyrirtækinu. Hér eru allir til í að hjálpa öllum tímum, ég hef ekki kynnst svona umhverfi áður. Það eru allir fljótir til og segja „ég skal bara koma yfir og aðstoða þig“. Mér finnst allir svo léttir, það er alltaf tekið vel í það þegar ég leita eftir aðstoð. Í upphafi þá vissi ég takmarkað og þá var mentorinn mín hægri og vinstri hönd. Þegar hún fór í frí þá fannst mér svo gott hvað allir aðrir voru líka til í að hjálpa mér og opin fyrir því að leiðbeina mér.“

„Það sem hefur komið mér hvað mest á óvart er að starfið hefur verið mun fjölbreyttara en ég átti von á. Mér finnst líka sérstaklega gaman að upplifa hversu vel haldið er utan um sumarstarfsfólkið. Í svona stóru fyrirtæki átti ég frekar von á að ég myndi týnast í fjöldanum, en þvert á móti þá hef ég í raun fengið að upplifa það að ég sé frekar mikilvæg og að það sé verið að halda utan um mig. Það hefur t.d. verið ákveðin stemmning að fara í mötuneytið í hádeginu. Það er svo gaman að fara með öllu teyminu í mat og setjast saman. Ég upplifi að við séum hópur og mér hefur alltaf þótt ég vera mjög velkomin.“

„Félagslífið hefur einnig komið mér á óvart, það er alltaf svo mikið um að vera. Verkísleikarnir voru ótrúlega skemmtilegir og þá fékk ég tækifæri til þess að kynnast svo mörgum. Þetta er í raun og veru eins og ein stór fjölskylda og ég hlakka til næstu viðburða.“

Linda Petrea Georgsdóttir
Linda Petrea Georgsdóttir er tæknifræðinemi við Háskólann í Reykjavík. Í sumar hefur hún starfað í vélbúnaðarhópnum á Orku- og iðnaðarsviði.

„Ég hef aðallega verið að fást við uppfærslu á kerfismyndum í sumar, ég þurfti t.d. að uppfæra gamlar kerfismyndir af Reykjanesvirkjun og notaði Plant3D til þess. Á næstunni mun ég fara upp í Reykjanesvirkjun til þess að meta myndirnar út frá virkjuninni í raun, ég er mjög spennt fyrir því að kíkja þangað og fá að sjá virkjunina með eigin augum.“

„Það ríkir mjög huggulegt andrúmsloft hjá Verkís, þetta var fyrsta sumarið mitt á verkfræðistofu og ég tók sérstaklega eftir því hversu rólegt andrúmsloftið er. Það var auðvelt að ná sambandi við samstarfsfólkið og ég gat í rauninni spjallað við hvern sem er. Þetta hefur bara allt verið rosalega næs, samstarfsfólkið og stemmningin. Það var ekkert mál að labba yfir til næstu manneskju og fá aðstoð.“

Sumarstarfsfólk Verkís 2023