Sundlaug inni í kletti á Grænlandi
Í lok síðasta árs lauk Verkís við frumhönnun á sundlaug sem fyrirhugað er að byggja inni í klettahæð í bænum Sisimiut á Grænlandi. Verkís vann einnig kostnaðarmat og skilaði bergtæknilegum útreikningum ásamt túlkun jarðfræðirannsókna. Í byrjun árs var ákveðið að bjóða verkið út í alútboði sumarið 2018.
Verkís er aðalráðgjafi verksins og sér þar af leiðandi um alla ráðgjöf sem snýr að verkfræði og arkitektúr. Arkís arkitektar munu sjá um síðarnefnda atriðið fyrir Verkís. Vonir standa til þess að hægt verði að taka sundlaugina í notkun í lok árs 2019.
Hellirinn sem sprengdur yrði inn í klettinn er um 22 metrar á breidd, 15 metrar á hæð og 75 metrar á lengd. Hann mun rúma 25 m x 12,5 m sundlaug með tveimur stökkpöllum, eins metra háum og þriggja metra háum og heitavatnslaug til þjálfunar og endurhæfingar. Þá verður einnig heitur pottur, búningsklefar, afgreiðsla og tækjarými. Aðgengi fyrir hreyfihamlaða á vera til fyrirmyndar. Við hönnun sundlaugarinnar verður lögð áhersla á að viðhald hennar verði sem minnst. Eins og sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni eru hús á hæðinni þar sem fyrirhugað er að koma sundlauginni fyrir.
Síðastliðið sumar var staðsetningin skoðuð og bergið á yfirborðinu sprungumælt. Um haustið voru svo boraðar fimm kjarnaholur sem voru kortlagðar. Framkvæmdar voru spennumælingar í berginu, brotþolspróf á kjarnasýrum, hitamælingar og grunnvatnsmælingar í holunum. Einnig voru boraðar nokkrar jarðkönnunarholur til að finna klapparyfirborð því bergþekjan er minnst um 14 metrar yfir höllinni.
Rannsóknirnar miðast við að kanna styrk og gæði bergsins og safna upplýsingum fyrir útreikninga á stöðugleika bergrýmisins. FEM útreikningar voru framkvæmdir í forritinu RS2 sem kemur frá RocScience í Kanada. Útreikningarnir á bergtækninni hjálpuðu til við að ákveða þversniðið og meta bergstyrkingarsþörf bergsins.
Aðeins ein 25 metra löng sundlaug er í landinu, í höfuðstaðnum Nuuk og hafa grænlensk börn meðal annars verið send til Íslands til að læra sund á síðustu árum vegna skorts á aðstöðu. Nýja sundlaugin í Sisimut mun spila stóran þátt í sundkennslu barna á svæðinu og hefur sveitarfélagið Quqqata stefnt að byggingu hennar í mörg ár.