09/07/2019

Sundlaugakeppni Verkís

Sundlaugakeppni Verkís
Sundlaug keppni Verkís 2019

Sundlaugakeppni Verkís. Í sumar fer sundlaugakeppni Verkís fram í áttunda skipti. Keppnin stendur yfir í þrjá mánuði, frá 1. júní til 31. ágúst og keppist starfsfólk fyrirtækisins um að prófa sem flestar laugar á þeim tíma í von um að sigra keppnina. Sumarið 2016 var met slegið þegar sigurvegararnir fóru í 64 laugar.

Sumarið 2011 vildi Ingibjörg Arnheiður Halldórsdóttir (Inga Heiða), aðstoðarmaður sviðsstjóra á Orkusviði Verkís, hvetja samstarfsfólk sitt til að prófa nýjar sundlaugar. Hún bjó til sundlaugakeppnina sem vakti mikla lukku og sumarið eftir var keppnin haldin meðal allra hjá Verkís.

Inga Heiða var þó heldur lengur að sigra keppnina en hún bjóst við og var það ekki fyrr en í fyrra, sumarið 2018, sem hún hlaut öndina eftirsóttu, verðlaunagrip keppninnar. Hún fór í 36 sundlaugar  og í sjósund í sex landshlutum. Hún setti sér ekki aðeins það markmið að sigra keppnina, heldur er langtímamarkmið hennar að fara í allar sundlaugarnar á listanum. Í upphafi þessa sumars var hún búin með 96 sundlaugar og átti 32 laugar eftir. Inga Heiða heldur ótrauð áfram og verður spennandi að sjá hvenær markmiðið næst.

Stigafjöldi fyrir sundlaugar er mismunandi eftir landssvæðum. Sundlaugarnar í Grímsey, Hrísey og Vestmannaeyjum gefa fleiri stig en aðrar sundlaugar landsins sem sárabætur fyrir mögulega sjóveiki og sjóriðu. Bónusstig fást fyrir sjósund víðsvegar um landið og erlendis, stig fást fyrir allt að tíu heitar laugar og ef farið er oftar en 10 sinnum í sömu laugina fást bónusstig fyrir það. Við skráningu í keppninni er starfsfólk Verkís hvatt til að hafa gildi fyrirtækisins að leiðarljósi, heilindi, metnaður og frumkvæði.

Hljóp síðustu metrana til að fara í sund í tíu mínútur – Viðtal við Ingu Heiðu

Hvaða sundlaug kom þér mest á óvart og af hverju? Ég fór í gönguferð á Hornströndum og ætlunin var að gista eina nótt í Reykjarfirði en þar er laug sem ég var mjög spennt að fara í. Við lentum í mikilli svaðilför, festumst yfir nótt í Furufirði og fengum því að kynnast vestfirskri gestrisni. Því var útséð með sundferð eða það héldum við. Báturinn sem átti að ná í okkur í Furufjörð tilkynnti töluverða seinkun þannig að við ákváðum að nýta daginn og góða veðrið og hendast yfir heiðina. Þegar við loksins komum í Reykjarfjörð þá vorum við að falla á tíma áður en báturinn kæmi og ég bókstaflega hljóp síðustu metrana (líka til að verjast kríunum) náði að fara í sundlaugina í 10 mínútur og það var geggjað. Þessi sundlaug er á fallegum stað, snyrtileg og heit. Í sömu ferð fór ég líka í Krossneslaugina á Ströndum og hún er alveg mögnuð.

Hver er uppáhalds sundlaugin þín á höfuðborgarsvæðinu og af hverju? Ég hef farið í allar sundlaugarnar á höfuðborgarsvæðinu og finnst þær allar hafa eitthvað frábært. Ég fagna því að það eru kaldir pottar við flestar laugar, köldu pottarnir í Garðabæ og í Sundhöllinni eru vel heppnaðir. Mér finnst Lágafellslaugin tikka í flest boxin. Einhvern tímann tjáði ég mig á Facebook að Ásvallalaug væri mér ekki að skapi og þá fékk ég yfir mig fullt af skömmum því hún væri frábær æfingalaug, skemmtileg innilaug fyrir börn, góð aðstaða í búningsklefum osfrv. og þegar ég fór svo að pæla betur í þessu þá var ekki sanngjarnt að dæma heila sundmiðstöð út af heitu pottunum.

Hvaða sundlaug á landsbyggðinni er þín uppáhalds? Auðvitað Hofsós! Þegar ég byrjaði í 1. bekk á Hofsósi voru á veggjum skólans teikningar að íþróttahúsi og sundlaug en ekkert gerðist fyrr en árið 2010 þegar sveitarfélagið fékk sundlaugin að gjöf. Þannig að þessi sundlaug hefur tilfinningalegt gildi fyrir mig og ég þekki yfirleitt alltaf einhvern þegar ég fer í sund en stundum hef ég fengið að hafa hana alein út af fyrir mig og það er auðvitað dásamlegt enda er útsýnið alveg geggjað.

Þess má geta að Verkís annaðist hönnun burðarvirkis, fráveitu-, hreinlætis- og hitalagna, loftræsilagna, sundlaugakerfa og raflagna í sundlauginni á Hofsósi.

Ertu með einhver ráð fyrir alla þá sem ætla að vera með og reyna að stefna á sigur í keppninni? Fyrsta skrefið er að prenta út listann og hafa hann með í bílnum. Oft hefur það reynst nokkuð vel að hafa börn með í ráðum, ég hef kallað þau leynivopn. Það er líka frábært að fara í bíltúr um kvöld og helgar og skreppa í sund til dæmis er frábær laug í Þorlákshöfn (innilaug og leiktæki fyrir þau litlu) og ég mæli líka með að skreppa í Guðlaugu á Akranesi og fara í sjóinn í leiðinni. Ég hef aldrei á ævinni séð eftir sundferð. 🙂

Sundlaugakeppni Verkís
Sundlaug keppni Verkís 2019