Sunna Liv Stefánsdóttir kynnti lífkol sem vistvænt byggingarefni

Verkís tók þátt í mikilvægu samtali um sjálfbærni í byggingariðnaði á málþinginu Byggjum til framtíðar
Sunna Liv Stefánsdóttir, efnaverkfræðingur hjá Verkís, var meðal fyrirlesara á málþinginu Byggjum til framtíðar sem fram fór miðvikudaginn 11. júní í Háskólanum í Reykjavík. Þar flutti hún erindi um mikilvægi þess að nýta umhverfisvæn byggingarefni og kynnti sérstaklega lífkol (e. biochar) sem spennandi möguleika til að draga úr kolefnisspori bygginga.
Mikilvægi nýrra efna í byggingariðnaði
Í erindi sínu, sem bar titilinn Mikilvægi umhverfisvænna byggingarefna – Lífkol, fjallaði Sunna Liv Stefánsdóttir um nauðsyn þess að horfa til nýrra leiða og efna til að takast á við loftslagsáskoranir innan byggingargeirans. Lífkol er vistvænt efni sem hefur burði til að minnka kolefnisspor bygginga og jafnframt bjóða upp á fjölbreytta nýtingarmöguleika í byggingariðnaði framtíðarinnar. Erindi hennar vakti athygli fyrir skýra sýn á hvernig efnaverkfræði getur stutt við sjálfbæra þróun í hönnun og framkvæmd mannvirkja.

Þverfaglegt samtal um heilnæmar og endingargóðar byggingar
Málþingið var haldið í tengslum við alþjóðlegu ráðstefnuna Healthy Buildings 2025 og stóðu að því meðal annars Samtök iðnaðarins, Reykjavíkurborg, Grænni byggð og fjölmörg verkfræðifyrirtæki, þar á meðal Verkís. Markmið málþingsins var að efla samtal meðal hönnuða, verkfræðinga, stjórnvalda, rannsakenda og framkvæmdaaðila um framtíð bygginga á Íslandi – með áherslu á sjálfbærni, gæði, innivist og heilbrigði.
Á meðal viðfangsefna sem rædd voru á málþinginu voru:
- Hvernig tryggjum við að byggingar endist lengur og krefjist minna viðhalds?
- Hvernig má byggja með vistvænum efnisvalkostum án þess að fórna gæðum eða góðri innivist?
- Hvernig verða loftgæði og önnur heilsutengd atriði að lykilforsendum í hönnun og rekstri bygginga?
Verkís leggur sitt af mörkum til grænni framtíðar
Með þátttöku sinni í málþinginu og framlagi Sunnu Liv Stefánsdóttur styrkir Verkís stöðu sína sem leiðandi ráðgjafi á sviði sjálfbærrar hönnunar og umhverfisvænna lausna. Fyrirtækið vinnur markvisst að því að þróa og innleiða nýjar aðferðir sem styðja við kolefnishlutlausa framtíð, hvort sem um ræðir efnisval, orkulausnir eða heildstæða nálgun í mannvirkjahönnun.
Verkís þakkar Sunnu Liv fyrir framlag sitt og fagnar því að fagleg þekking og nýsköpun starfsfólks nýtist í umræðu sem hefur áhrif langt fram í tímann.