22/08/2020

Tenging Árbæjaræðar við Suðuræð gekk vonum framar

Síðastliðinn þriðjudag var ný stofnæð, Árbæjaræð, tengd við Suðuræð. Þetta var gert svo tengja mætti heimili og fyrirtæki í Árbæ- og Seláshverfi inn á Hellisheiðar- og Nesjavallavirkjun í stað borholna í Reykjavík og Mosfellsbæ. Verkís hefur umsjón með Árbæjaræð fyrir hönd Veitna.

Um mjög stóra tengingu var að ræða og þurfti að loka fyrir vatn á stórum hluta höfuðborgarsvæðisins. Framkvæmdin hefur verið í undirbúningi í marga mánuði en markmiðið var að fjölga heimilum sem fá heitt vatn frá Hellisheiði og Nesjavöllum.

Með aukinni notkun á heitu vatni, m.a. vegna fjölgunar íbúa og þéttingu byggðar, hefur álag á jarðhitageyminn sem fæðir borholurnar á lághitasvæðunum aukist og þurfi að bregðast við því. Framkvæmdin er liður í því að þessi mikilvægu lághitasvæði nýtist íbúum höfuðborgarsvæðisins til langrar framtíðar.

Lagt var upp með lokunin stæði yfir í ríflega þrjátíu klukkustundir. Lokunin náði til alls Hafnarfjarðar, hluta Garðabæjar, efri byggða Kópavogs og Norðlingaholts í Reykjavík. Gera mátti ráð fyrir algjöru heitavatnsleysi á umræddum svæðum. Lokunin gekk mjög vel og lauk framkvæmdunum átta klukkustundum á undan áætlun.

Heimsmarkmið

Heitt vatn Tenging fyrir Veitur
Tenging fyrir Veitur