22/08/2020

Tenging Árbæjaræðar við Suðuræð gekk vonum framar

Heitt vatn Tenging fyrir Veitur
Tenging fyrir Veitur

Síðastliðinn þriðjudag var ný stofnæð, Árbæjaræð, tengd við Suðuræð. Þetta var gert svo tengja mætti heimili og fyrirtæki í Árbæ- og Seláshverfi inn á Hellisheiðar- og Nesjavallavirkjun í stað borholna í Reykjavík og Mosfellsbæ. Verkís hefur umsjón með Árbæjaræð fyrir hönd Veitna.

Um mjög stóra tengingu var að ræða og þurfti að loka fyrir vatn á stórum hluta höfuðborgarsvæðisins. Framkvæmdin hefur verið í undirbúningi í marga mánuði en markmiðið var að fjölga heimilum sem fá heitt vatn frá Hellisheiði og Nesjavöllum.

Með aukinni notkun á heitu vatni, m.a. vegna fjölgunar íbúa og þéttingu byggðar, hefur álag á jarðhitageyminn sem fæðir borholurnar á lághitasvæðunum aukist og þurfi að bregðast við því. Framkvæmdin er liður í því að þessi mikilvægu lághitasvæði nýtist íbúum höfuðborgarsvæðisins til langrar framtíðar.

Lagt var upp með lokunin stæði yfir í ríflega þrjátíu klukkustundir. Lokunin náði til alls Hafnarfjarðar, hluta Garðabæjar, efri byggða Kópavogs og Norðlingaholts í Reykjavík. Gera mátti ráð fyrir algjöru heitavatnsleysi á umræddum svæðum. Lokunin gekk mjög vel og lauk framkvæmdunum átta klukkustundum á undan áætlun.

Heimsmarkmið

Heitt vatn Tenging fyrir Veitur
Tenging fyrir Veitur