23/04/2018

Þeistareykjavirkjun komin í fullan rekstur

Þeistareykir
Þeistareykir

Seinni vélasamstæða Þeistareykjavirkjunar hefur nú verið tekin í notkun og er virkjunin því komin í fullan rekstur. Um er að ræða 90 MW gufuaflsvirkjun sem byggð var í tveimur 45 MW áföngum. Fyrri áfanginn var gangsettur 17. nóvember á síðasta ári.

Framkvæmdir við annan áfanga hafa gengið vel og hefur seinni vélasamstæðan verið í tilraunarekstri frá miðjum febrúar. Framkvæmd Þeistareykjavirkjunar hefur fylgt áætlun frá fyrsta degi.

Fullnaðarhönnun Þeistareykjavirkjunar og gerð útboðsgagna hófst í lok árs 2011. Verkís og Mannvit eru aðalráðgjafar Landsvirkjunar í þessu verki, ásamt TARK og Landslag. Hönnun virkjunarinnar tók mið af hagkvæmni, góðri nýtingu auðlindarinnar og samspil við umhverfið á Þeistareykjum.

Ráðgjafahópur Verkís og Mannvits annaðist meðal annars allan vélbúnað, rafbúnað og stjórnbúnað, sem og gufuveitu, stöðvarhús og önnur mannvirki. Ráðgjafahópurinn kom einnig að þeim hluta framkvæmdaeftirlits sem sneri að vél-, raf- og stjórnbúnaði auk landmótunar, sem og aðstoð við prófanir og gangsetningu.

Framkvæmdir hófust í apríl 2015 og kom fjöldi verktaka og vélbúnaðarframleiðanda þar að. Helsta má þar nefna LNS Saga (nú Munck) sem var aðalverktaki við reisingu stöðvarhúss og lagningu gufuveitu og Fuji sem útvegaði túrbínur virkjunarinnar og kæliturna.

Þeistareykir
Þeistareykir