26/10/2023

Þorskafjarðarbrú opnuð

Þorskafjarðarbrú opnuð
© www.visir.is

Þorskafjarðarbrú opnuð. Vegagerðin opnaði í gær nýja 260 metra tvíbreiða brú yfir Þorskafjörð við hátíðlega athöfn þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps og Bergþóra Þorkelsdóttir, Vegamálastjóri fluttu ávörp og klipptu á borða við mikinn fögnuð. Verklok voru áætluð í lok júní 2024 og er framkvæmdin því 8 mánuðum á undan áætlun.

Verkefni Verkís var að vera með eftirlit og ráðgjöf með útboðsverkinu Vestfjarðarvegur (60) um Gufudalssveit, Kinnarstaðir – Þórisstaðir.
Verkið felur í sér nýbyggingu Vestfjarðarvegar á um 2,7 km kafla ásamt byggingu á steyptri eftirspenntri bitabrú yfir Þorskafjörð. Vegurinn er alfarið byggður í nýju vegsvæði sem tengist Vestfjarðarvegi í báða enda. Aðaleftirlitsmaður var Hafsteinn Hafsteinsson bæði með vegagerð og brúargerð, en aðstoðarmaður við eftirlit var Jökull Helgason.

Með nýrri brú leggst af um 10 km kafli á núverandi Vestfjarðarvegi ásamt einbreiðri brú á Þorskafjarðará frá árinu 1981 og bætir því samgöngur mikið fyrir íbúa á svæðinu. Fyrstar yfir brúnna voru mæðgur úr Gufudal og það á hestbaki, þær Jóhanna Ösp Einarsdóttir og dætur hennar tvær, Ásborg og Yrsa Dís Styrmisdætur.

Þorskafjarðarbrú opnuð
© www.visir.is

Sjá meira um málið á Visir.is

 

Heimsmarkmið

Þorskafjarðarbrú opnuð
© www.visir.is