26/06/2024

Þrívíddarskönnun með drónum

Þrívíddarskönnun með drónum
© www.ruv.is
Varnargarðurinn við Svartsengi

Verkís vinnur nú hörðum höndum að undirbúningi fyrir hækkun varnargarðsins við Svartsengi. Þrívíddarskönnun með drónum verður nýtt til að mynda nýja hraunið frá eldgosinu við Sundhnjúksgígaröðina áður en ákvörðun verður tekin um frekari hækkun á L1 varnargarðinum.

Hörn Hrafnsdóttir, Vatnsauðlindaverkfræðingur hjá Verkís, hefur unnið að gerð varnargarða í eldgosum á Reykjanesskaga. Hún útskýrir að nýja hraunið gæti á ákveðnum stöðum hjálpað til við að beina hrauninu norður. „Þetta er greiningarvinna sem við erum að byrja á, en samhliða þurfum við að bíða með að sjá að hraunið stoppi svo við sjáum hvert landið verður,“ segir Hörn í viðtali við RÚV á dögunum.

Verkefnið við hækkun varnargarðsins var hafið áður en hraunið tók að flæða yfir hann fyrr í júní. Nú er verið að meta hvort hækka eigi varnargarðinn meira til að verjast frekari gosum við Sundhnjúksgígaröðina.

Hörn hefur unnið að gerð varnargarða síðan fyrsta gosið hófst við Fagradalsfjall árið 2021 og býr yfir mikilli reynslu og ítarlegum mælingum. Hún segir að hraunflaumurinn þurfi að ná jafnvægi áður en hægt sé að taka endanlega ákvörðun um frekari hækkun varnargarðsins. „Hann er alveg að fara að ná jafnvægi nú á næstu dögum. Þá notum við hraunflæðilíkön og hermum hraunflæði fyrir næsta gos ofan á nýtt land. Út frá því getum við tekið ákvörðun um hvernig við viljum hafa þessa hækkun á garðinum sem við erum að vinna í.“

Hörn Hrafnsdóttir
Hörn Hrafnsdóttir

Verkís hefur frá því í fyrsta gosinu við Fagradalsfjall 2021 unnið að gerð varnargarða með mælingum og nýtingu háþróaðra tækni. Í samstarfi við Eflu og myndmælingafyrirtækið Svarma hefur landið verið mælt með drónum, sem taka þrívíddarmyndir af yfirborðinu. Þessar myndir eru síðan notaðar til að búa til landlíkön sem hermt er ofan á.

Við hjá Verkís erum stolt af því að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni sem mun auka öryggi og vernd fyrir landsmenn.

Heimsmarkmið

Þrívíddarskönnun með drónum
© www.ruv.is
Varnargarðurinn við Svartsengi