12/03/2018

Tjaldurinn mættur á þak Verslunarskólans

Tjaldur
Tjaldurinn

Tjaldurinn, hinn eini sanni, er mættur á þak Verslunarskóla Íslands en hann er vorboði í huga starfsfólks Verkís. Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur, fylgist grannt með þakinu á þessum tíma árs og kom hann auga á tjaldinn í dag.

Tjaldurinn er þremur dögum seinna á ferðinni en í fyrra en þó er mögulegt að hann hafi komið um helgina þegar enginn var til að fylgjast með honum.

Þakið er óðalið hans og þar hefur hann orpið síðastliðin ár vitandi að þar er hann óhultur fyrir afráni katta, en kattaher borgarinnar er öflugri en margur heldur.

Aðeins annar fuglinn er kominn. Að sögn Arnórs Þórs er tilgangurinn líklega að tryggja að enginn ræni frá honum óðalinu og bíða komu makans sem gæti hafa varið vetrinum á öðrum stað.

Nú bíðum við eftir sílamáfnum sem hefur orpið undanfarin tvö ár á þakinu á Versló með tjaldinum og hrellt fótgangandi með steypiflugi sínu til varnar ungum sínum. Koma fuglanna boðar vorið, sem alltaf kemur. Það er skammt undan.

Uppfært 13. mars kl. 14.10

Fuglaáhugakona í starfsmannahópi Verkís hafði samband við Arnór Þóri og lét vita að hún hefði séð tjaldinn skömmu fyrir helgi. Tjaldurinn er þá á ferðinni á svipuðum tíma og í fyrra, eða jafnvel aðeins fyrr.

Tjaldur
Tjaldurinn