13/05/2020

Umhverfisáhrif endurbóta í Helguvík metin

Fyrsti áfangi kísilverksmiðjunnar í Helguvík var í rekstri með hléum frá nóvember 2016 til ágúst 2017, þegar Umhverfisstofnun stöðvaði reksturinn vegna frávika frá starfsleyfi og kvartana frá íbúum í nágrenni verksmiðjunnar. Unnið hefur verið að undirbúningi endurbóta síðan og hófst vinna við mat á umhverfisáhrifum snemma árs 2018.

Endurbætur á kísilverksmiðju Stakksbergs fela í sér uppsetningu á skorsteini til að bæta dreifingu útblásturs við allar aðstæður í rekstri, ný og endurbætt mannvirki og búnað verksmiðju, frágang á lóð auk rekstrarlegra endurbóta.

Frummatsskýrslan fjallar um forsöguna, staðhætti, samræmi við skipulag, framleiðsluferli og framkvæmdalýsingu, loftslagsmál og mat á líklegum áhrifum á loftgæði, vatnafar, lífríki, samfélag, heilsu, hljóðvist og ásýnd. Þá er fjallað um vöktun, samráð og kynningu og að lokum er heildarniðurstaða matsins tekin saman.

Allir geta gert athugasemdir við frummatsskýrsluna og sent þær til Skipulagsstofnunar fram til 26. júní næstkomandi. Sjá nánar um gögn málsins hér

Helguvík kísilverksmiðja
Helguvík Hörður Kristleifsson