29/04/2020

Unnið að endurnýjun lagna undir Seljavegi

Unnið að endurnýjun lagna
Endurnýjun lagna á Seljavegi

Unnið að endurnýjun lagna undir Seljavegi. Undanfarnar vikur hefur verið unnið að endurnýjun lagna sem liggja undir Seljavegi í Reykjavík. Verkís fer með umsjón verksins fyrir Veitur.

Verkið fólst í því að skipta um skólplögn og brunn, leggja kaldavatnslögn ásamt því að setja regnvatnslögn þar sem Veitur er að byrja að skipta fráveitukerfinu á svæðinu upp í regnvatn og skólp. Núverandi kerfi var blandað kerfi. Einnig var lögð ný rafmagnsheimtaug frá dreifistöð í Mýrargötu og upp í Seljaveg 2.

Þó verkið sé ekki stórt þarf að huga að mörgu við framkvæmdir í miðbæ Reykjavíkur. Sækja þarf um hin ýmsu leyfi hjá mismunandi aðilum vegna lokana o.fl. Í þessu verki þurfti t.d. að loka Mýrargötu sem er í eigu Vegagerðarinnar.

Mýrargata er umferðarþung gata með stórum og smáum farartækjum. Við Seljaveg eru framkvæmdir við tvær nýbyggingar og mjög þröngt svæði til að athafa sig. Mikilvægt er að hafa góð samskipti við alla þá aðila sem koma að verkinu og þá aðila sem verkið hefur áhrif á, t.d. að upplýsa nágranna um framkvæmdina og gang hennar á meðan framkvæmd stendur yfir. Lögð var mikil áhersla á aðgengi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur um svæðið og að verslunum.

Fyrst og fremst var ráðist í þessar framkvæmdir vegna nýja hótelsins við Seljaveg, Center-Hótel Granda, sem áformað er að taki til starfa síðar á þessu ári. Hótelið verður með 195 herbergjum. Í húsnæðinu sem rifið var að hluta og endurbyggt fyrir hótelið voru meðal annars Loftkastalinn og Mjölnir.

Þjónusta Verkís á sviði ýmissa veitna. 

Unnið að endurnýjun lagna
Endurnýjun lagna á Seljavegi