29/05/2019

Varmadælustöðin í Vestmannaeyjum vígð í dag

Varmadælustöðin í Vestmannaeyjum
Þórdís ráðherra klippir á borða

Varmadælustöðin í Vestmannaeyjum var vígð við hátíðlega athöfn í dag. Verkís var ráðgjafi HS Veitna við verkið frá upphafi og annaðist meðal annars frum- og fullnaðarhönnun. Stöðin annar um 93% árlegrar varmaorku til húshitunar í Vestmannaeyjum.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, vígði nýju varmadælustöðina.

Í varmadælustöðinni er sjór nýttur sem varmagjafi fyrir hitaveitu HS Veitna. Sjótökuholur eru niðurgröfnum borholukjallara við norðurgafl stöðvarinnar og brunni í norðausturhorni lóðar. Holurnar eru 40 m djúpar og vatnsborð í þeim er á um 8 m dýpi.

Sjór úr holunum kólnar úr 6-11 °C í 2-3 °C í stöðinni og er kældur sjórinn nýttur af fiskvinnslu og útgerð. Sjór frá stöðinni sem ekki er nýttur af fiskvinnslu rennur til sjávar norðan við Eiðið. Varmaafl stöðvarinnar eru um 13 MW fullbyggð (5 vélar) og notar hún þá um 3,7 MW af rafmagni til varmaframleiðslunnar. Með tilkomu varmadælustöðvarinnar er rafmagnsnotkun hitaveitunnar um þriðjungur af því sem áður var.

Varmadælustöðin stendur við Hlíðarveg í Vestmannaeyjum. Í nóvember 2018 voru fjórar varmadælur teknar í notkun í stöðinni. Þær geta framleitt samtals á milli 10 og 11 MW af varmaorku fyrir hitaveituna. Gert er ráð fyrir fimm varmadælum alls.

Í kyndistöð er vatn hitað upp með raforku og eru olíukatlar notaðir sem varaafl verði afhendingarrof á raforkunni. Einnig er afgangsvarmi frá fiskvinnslu notaður sem varmagjafi fyrir hitaveituna.

Byrjað var að leggja dreifikerfi hitaveitu í eyjum 1976 og var meirihlutinn af bænum kominn með hitaveitu upp úr 1980. Í upphafi var varmi úr hrauninu frá Heimaeyjargosinu nýttur sem varmagjafi fyrir veituna. Heimaeyjargosið hófst 23. janúar 1973 og var því lýst lokið þann 3. júlí sama ár. Varmi frá hrauninu nýttist fyrir hitaveituna í um 10 ár.

Verkís vann forathugun og frumhönnun vegna varmadælustöðvarinnar, annaðist hönnunarstjórnun og gerð kostnaðar- og framkvæmdaáætlana, annaðist gerð hinna ýmsu útboðsgagna, vann fullnaðarhönnun, bruna- og hljóðhönnun og aðstoðaði við prófanir og gagnsetningu.

Varmadælustöðin í Vestmannaeyjum
Þórdís ráðherra klippir á borða