02/05/2024

Verkefni Verkís hljóta styrk

Verkefni Verkís hljóta styrk

Verkefni Verkís hljóta styrk. Verkís hlaut nýlega þrjá styrki vegna spennandi verkefna úr Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar.

  1. Staðsetning umferðarljósa. Áhrif á umferðarflæði. 
    • Verkefnið snýst um að sannreyna með umferðarhermun hvaða áhrif það hefur á umferðarflæði gatnamóta að fjarlægja mótlæg umferðarljós. Tilgangurinn er þá að bæta við þær upplýsingar sem hagsmunaaðilar þurfa til að meta hvort útfærslan sé þess virði.
    • Einn af göllum þess að fjarlægja mótlæg umferðarljós hefur verið talinn minnkað umferðarflæði um gatnamótin, en aðferðafræði frá Hollandi gæti þýtt að það sé ekki lengur svo. Ef umferðarflæðið minnkar ekki þá eru nefnilega fínir kostir við útfærsluna, þ.m.t. aukið umferðaröryggi fyrir óvarða vegfarendur.
  2. Endurskoðun EC7 og þjóðarviðauka. Jarðtæknihönun.
    • Tilgangur verkefnisins er að standa vörð um hagsmuni Íslands og hafa rödd þegar reglur og leiðbeiningar EC7 eru mótaðar. Gæta þarf þess að ákvæði staðalsins og breytingar á honum passi íslenskum aðstæðum. Þá þarf íslenskur þjóðarviðauki að endurspegla þær breytingar sem eru gerðar, en meginvinnan næstu misserin verður í uppfærslu á íslenska þjóðarviðaukanum. Einnig verður stuðlað að áframhaldandi kynningu staðalsins á Íslandi og aðstoða við innleiðingu hans.
    • EC7 hefur verið tekinn upp sem samræmdur staðall fyrir jarðtækni í Evrópu og sá eini sem gildir á þessu sviði. Staðallinn kom fyrst út árið 1997, en nú er unnið eftir 2004 (ÍST EN 1997-1) og 2007 (ÍST EN 1997- 2) útgáfunum og þjóðarviðauka við þann fyrrnefnda frá 2010. Stöðugt er tekið við ábendingum notenda og hagsmunaaðila og rætt við spegilnefndina, en það er mjög mikilvægt fyrir Ísland að vera áfram í virku samstarfi við hinar Norðurlandaþjóðirnar þ.a. rödd okkar heyrist.
  3. Sjálfbær stýring jarðefnaflutninga.
    • Verkefnið felst í að auka sjálfbærni í jarðefnaflutningum á Íslandi. Hannaður verður miðlægur gagnagrunnur sem mun halda utan um skráningu jarðefnaflutninga. Þar munu verkkaupar, verktakar og/eða hönnuðir skrá allt það jarðefni sem tengist framkvæmdum viðkomandi aðila, bæði efnisþörf og efnisframboð. Þetta mun stuðla að hagkvæmari skipulagningu verkefna með betri nýtingu jarðefna og þar af leiðandi lækka kostnað vegna jarðefnaflutninga, minnka kolefnisfótspor jarðefna, stytta vegalengdir þungaflutninga og minnka slit og álag á vegakerfi landsins.
    • Markmið verkefnisins felst í því að hanna greinargóðan og skýran gagnagrunn/forrit sem heldur utan um alla jarðefnaflutninga. Notendur munu geta séð yfirlit yfir alla sína jarðefnaflutninga þvert á framkvæmdir og á sama tíma séð áætlaðan akstur og kolefnisspor. Þetta miðlæga kerfi heldur utan um þau jarðefni sem eru í umferð og tengir saman mismunandi aðila innan byggingageirans. Aðilar geta þá hagrætt sínum verkefnum til að takmarka flutninga á jarðefnum. Forritið sýnir notendum sparnað í akstri og kolefnisspori ef jarðefni er samnýtt á milli framkvæmda.

Heimsmarkmið

Verkefni Verkís hljóta styrk