24/03/2021

Verkefni Verkís hljóta styrk

Þrír styrkir til Verkís
Þrír styrkir til Verkís

Verkís hlaut nýlega þrjá styrki vegna spennandi verkefna. Tveir styrkir koma úr Framkvæmdasjóði ferðamanna og einn úr Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar.

Hvað þarf til þess að fólk skipti um ferðamáta?

Verkefnið Vilji til breytinga á vali á ferðamáta frá einkabíl yfir í almenningssamgöngur hlaut styrk úr Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar. Verkefnisstjóri er Anna Guðrún Stefánsdóttir, umhverfis- og skipulagsverkfræðingur hjá Verkís.

Kannanir Maskínu hafa sýnt að talsverður fjöldi þeirra sem aka á einkabíl til og frá vinnu hefur áhuga á að skipta yfir í vistvænni ferðamáta. Þessar kannanir sýna hins vegar ekki hvað þarf til að fólk velji að skipta um ferðamáta. Ábati þess að breyta um ferðavenjur er margþættur en breyting á ferðavenjum er eitt af lykilatriðunum svo hægt sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Rannsókninni er ætlað að bera kennsl á þau hönnunaratriði sem uppfylla þarfir þeirra sem hafa lýst yfir vilja til að skipta úr einkabílnum fyrir almenningssamgöngur. Tilgangur hennar er að afla upplýsinga um hvaða þættir það eru sem hafa áhrif á vilja fólk til að nota almenningssamgöngur í stað einkabílsins. Markmiðið er að hægt verði að fá niðurstöður sem svara spurningunni um hvað þurfi til til að að fá þá sem notast í dag við einkabílinn til og frá vinnu til að velja frekar almenningssamgöngur.

Aukið öryggi ferðamanna í Víkurfjöru

Verkefnið Áfangastaður í Víkurfjöru í Mýrdalshreppi hlaut styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamanna. Verkefnisstjóri er Ulla Rolfsigne Pedersen, landslagsarkitekt hjá Verkís.

Styrkurinn er veittur til að þróa áfangastað í Víkurfjöru, þ.e. hönnun útsýnisstaðar við fjöruna en í því felst hönnun mannvirkja, landmótun og útfærsla á verkfræðilegum lausnum. Markmið verkefnisins er m.a. að auka öryggi ferðamanna og tryggja aðgengi að Víkurfjöru, þ.e. aðgengi og öryggi gangandi vegfarenda með því að styrkja göngutengsl og stýra umferð ferðamanna.

Markmið verkefnisins er að auka öryggi ferðamanna og tryggja aðgengi að Víkurfjöru, þ.e. aðgengi og öryggi gangandi vegfarenda með því að styrkja göngutengsl og beina umferð ferðamanna á tiltekinn stað. Einnig er markmið verkefnisins að styrkja staðaranda svæðisins og gera dvölina í Víkurfjöru minnisstæða og auðvelda íbúum og gestum að njóta umhverfisins. Auk þess er markmiðið að viðhalda náttúru svæðisins og lágmarka sjónræn áhrif af áfangastaðnum.

Bæta öryggi ferðamanna á háhitasvæði

Verkefnið Hverir og Hverarönd til sóma fékk styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamanna. Verkefnastjóri er Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur hjá Verkís.

Um er að ræða styrk í hönnun og smíði á öruggari og betri göngustígum, létta kaðlaafmörkun um þetta tiltölulega hættulega háhitasvæði og góðar merkingar til upplýsinga fyrir ferðamenn.

Verkefnið stórbætir öryggi ferðamanna á háhitasvæði, verndar náttúru og endurspeglar þannig megináherslur sjóðsins. Ekki er um fulla umbeðna styrkupphæð að ræða en ekki er veittur styrkur til öflugrar girðingar samkvæmt kostnaðaráætlun.

Þrír styrkir til Verkís
Þrír styrkir til Verkís