13/10/2025

Verkís á SNOW 2025

Alþjóðleg ráðstefna um snjóflóð og ofanflóð haldin á Íslandi

Alþjóðlegur vettvangur sérfræðinga

Verkís tók virkan þátt í alþjóðlegu ráðstefnunni SNOW 2025, sem haldin var dagana 29.september – 4.október á Ísafirði.
Á ráðstefnunni voru skráðir 115 þátttakendur frá tíu löndum, þar af 34 frá Íslandi, 28 frá Sviss og einn frá Japan. Verkís var eina íslenska verkfræðistofan sem tók þátt, og sýndi þar fram á sterka stöðu sína á þessu mikilvæga sviði.

Fulltrúar Verkís á SNOW 2025

Frá Verkís mættu Ragnar Lárusson, Reynir Leví Guðmundsson, Gísli Steinn Pétursson, Snorri Gíslason og Flosi Sigurðsson, sem hafa mikla reynslu af verkefnum tengdum snjóflóðavörnum, hermunum, öryggi og hönnun varna víða um land.
Verkís stóð fyrir þremur greinum, tveimur fyrirlestrum og einu veggspjaldi á ráðstefnunni, sem öll fjölluðu um rannsóknir og hagnýta verkfræði á sviði ofanflóða- og snjóflóðavarna.

Hermun krapaflóða á Patreksfirði

Ragnar Lárusson hélt erindi og birti grein sem fjallaði um krapaflóðahermanir á Patreksfirði undir heitinu Numerical simulation of slushflow and assessment of proposed protective measures in Patreksfjörður, Iceland.
Meðhöfundar voru Reynir Leví Guðmundsson, Gísli Steinn Pétursson, Snorri Gíslason og Kristín Martha Hákonardóttir hjá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

Ragnar flytur hér erindi sitt
Ragnar flytur hér erindi sitt

Snjóflóðahermun við hönnun varna á Flateyri

Reynir Leví Guðmundsson hélt erindi og birti grein um nýtingu snjóflóðahermana við hönnun varna á Flateyri, sem bar heitið Use of OpenFOAM and µ(I)-rheology in the design of protective structures for avalanches for Flateyri NW Iceland.
Meðhöfundar voru Snorri Gíslason, Hafþór Pétursson hjá Landsvirkjun og Kristín Martha Hákonardóttir.

Reynir Leví flytur hér erindi sitt
Reynir Leví flytur hér erindi sitt

Snjósöfnunargrindur á Eyrarfjalli

Gísli Steinn Pétursson kynnti veggspjald og grein sem fjallaði um virkni snjósöfnunargrinda á Eyrarfjalli á Flateyri undir heitinu Snow fences on Eyrarfjall above Flateyri – A pilot study.
Meðhöfundar voru Þorbjörg Anna Sigurbjörnsdóttir, Kristín Martha Hákonardóttir, Tómas Jóhannesson og Örn Ingólfsson hjá Veðurstofu Íslands, Skúli Þórðarson frá Vegsýn og Áki Thoroddsen.

Þrjátíu ár af hönnun nýrra varna

Að auki var Gísli Steinn meðhöfundur á grein Kristínar Mörthu Hákonardóttur sem bar heitið Avalanche and landslide protection measures in Iceland – 30 years of design innovations protecting twelve villages across Iceland.
Greinin fjallar um þrjátíu ára þróun hönnunar snjóflóða- og aurskriðuvárvarna á Íslandi. Aðrir meðhöfundar voru Tómas Jóhannesson hjá Veðurstofu Íslands og Hafsteinn Pálsson hjá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

Sterk staða Verkís á sviði snjóflóðavarna

Þátttaka Verkís á SNOW 2025 undirstrikar mikilvægi íslenskrar verkfræðikunnáttu á þessu sviði og sýnir fram á sterka stöðu Verkís í rannsóknum og hönnun á sviði snjóflóða- og ofanflóðavarna.

Hér má sjá fleiri myndir af ráðstefnunni

 

Heimsmarkmið