Verkís er fyrirmyndarfyrirtæki og framúrskarandi fyrirtæki 2024
Á dögunum hlaut Verkís tvær mikilvægar viðurkenningar sem við erum afar stolt af. Annars vegar var það viðurkenning frá Viðskiptablaðinu og Keldunni sem fyrirmyndarfyrirtæki og hins vegar frá Creditinfo sem framúrskarandi fyrirtæki.
Fyrirmyndarfyrirtæki 2024
Viðskiptablaðið og Keldan gefa árlega út blaðið Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, þar sem þau fyrirtæki sem sýna stöðugan og sterkan rekstur eru valin. Verkís er á meðal þessara fyrirtækja árið 2024, en valið byggist á ströngum skilyrðum sem fyrirtæki þurfa að uppfylla. Til þess að komast á listann þurfa fyrirtæki meðal annars að hafa jákvæða afkomu og nægjanlegar eignir yfir tiltekinn mörk.
Skilyrðin sem Viðskiptablaðið og Keldan leggja til grundvallar eru:
- Skila ársreikningum fyrir rekstrarárin 2023 og 2022.
- Hafa jákvæða afkomu á þessum rekstrarárum.
- Tekjur yfir 40 milljónir króna á ári.
- Eignir yfir 80 milljónir króna í lok hvers árs.
- Eiginfjárhlutfall yfir 20%.
Auk þess eru metnir aðrir þættir sem snúa að styrk reksturs fyrirtækja.
Framúrskarandi fyrirtæki 2024
Verkís hlaut einnig viðurkenningu frá Creditinfo sem framúrskarandi fyrirtæki, og er þetta áttunda árið í röð sem Verkís fær þessa viðurkenningu. Það er okkur mikið gleðiefni að fá þessa viðurkenningu ár eftir ár, sem sýnir styrk fyrirtækisins og þau markmið sem við vinnum að til að efla hag allra sem tengjast rekstrinum.
Til að komast á lista framúrskarandi fyrirtækja þurfa fyrirtæki að uppfylla strangar kröfur Creditinfo, meðal annars að:
- Vera í lánshæfisflokki 1-3.
- Skila ársreikningum innan átta mánaða eftir lok rekstrarárs.
- Hafa lágmarksrekstrartekjur upp á 55 milljónir króna árið 2023 og 50 milljónir króna 2022 og 2021.
- Hafa jákvæða rekstrarniðurstöðu (EBIT) árin 2021-2023.
- Hafa eignir yfir 110 milljónir króna árið 2023.
Við hjá Verkís erum afar stolt af þessum tveimur viðurkenningum og munum halda áfram að leggja okkar af mörkum til stöðugs og áreiðanlegs reksturs.