16/05/2023

Verkís hannar göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut 

Verkís hannar göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut
Gerð verður tímabundin göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut.

Verkís hannar göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut. Verkís vinnur að hönnun göngu- og hjólabrúar yfir Sæbraut sem ætlað er að bæta umferðaröryggi verulega. Brúin verður færanleg, sem mun nýtast vel á meðan framkvæmdir við lagningu Sæbrautar í stokk standa yfir. Brúin er hugsuð sem tímabundin lausn, þ.e. áður en framkvæmdir stokks hefjast og á meðan á framkvæmdum stendur.  Hönnun brúarinnar er unnin í samstarfi við Gláma-Kím arkitektastofu.

Verkís sér um verkhönnun undirstaðna fyrir göngu- og hjólabrúna sem og hönnun rafmagns og lýsingar og forhönnun stokksins ásamt því að sjá um verkefnisstjórn.

Brúin verður yfirbyggð, með lyftu og tröppum og verður áhersla á jákvæða upplifun vegfarenda og að innra rými verði aðlaðandi. Brúin tengist Snekkjuvogi/Barðavogi í vestri og Tranavogi/Dugguvogi í austri. Í frétt á vef Reykjavíkurborgar segir að núverandi aðstæður við Sæbraut kalli á trygga tengingu yfir götuna sem fyrst og því verði ráðist í tímabundnar aðgerðir á þessum stað.

Framkvæmdin er samvinnuverkefni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. Verkefnið er fjármagnað af Samgöngusáttmálanum, sem gerður var árið 2019 milli ríkisins og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu, þar sem markmiðið er meðal annars að stuðla að auknu umferðaröryggi, hagkvæmum, greiðum og skilvirkum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.

Frétt Reykjavíkurborgar um verkefnið.

Heimsmarkmið

Verkís hannar göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut
Gerð verður tímabundin göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut.