13/11/2023

Verkís í Gryfino

Hluti af hóp Verkís í Gryfino

Í síðasta mánuði tók Verkís þátt í ráðstefnu í Póllandi þar sem verkefnið „Adaptation to Climate Change through the development of Green and Blue infrastructure in Gryfino” var kynnt. Á ráðstefnunni hélt Sigurður Grétar Sigmarsson, vatnsauðlindaverkfræðingur hjá Verkís,
kynningu á blágrænum ofanvatnslausnum, og Haukur Þór Haraldsson, viðskiptaþróunarstjóri hjá Verkís, hélt almenna kynningu um starfsemi Verkís á erlendri grund.

Verkís var samstarfsaðili í þessu mikilvæga verkefni sem hefur verið í gangi undanfarin ár og má segja að ráðstefnan hafi verið lokakaflinn í þessu tiltekna ferðalagi með sveitarfélaginu Gryfino, þó að samstarfið muni án efa halda áfram með einhverjum hætti á næstu misserum.

Markmið þessa verkefnis var að auka seiglu svæðisins til að takast á við neikvæð áhrif loftslagsbreytinga, auk þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, með fjárfestingu í innviðum, þjálfun sérfræðinga og vitundarvakningu meðal íbúa. Þetta margþætta verkefni innihélt m.a.:
● Gerð fræðsluefnis um blágrænar ofanvatnslausnir og loftlagsbreytingar
● Umsjá vinnustofa, fyrirlestra og vettvangsferða fyrir starfsfólk sveitarfélagsins
● Ráðgjöf og rýni á blágrænum lausnum
● Gerð ofanvatnsáætlunar fyrir deiliskipulag svæðis í Gryfino þar sem aðferðafræði blágrænna ofanvatnslausna var beitt
● Hönnun og sérlausnir á minnismerkjum og kennileitum fyrir Gryfino
● Gerð og endurbætur á grænum svæðum
● Uppsetning fræðsluhorna á fjölsóttum stöðum – sem fræða börn um áhrif loftslagsbreytinga

Heimsmarkmið

Hluti af hóp Verkís í Gryfino