12/06/2020

Verkís kemur áfram að orkuskiptum í Akureyrarhöfn

Skrifað undir vegna styrks til Akureyrarhafna vegna orkuskipta
Skrifað undir vegna styrks til Akureyrarhafna vegna orkuskipta

Verkís mun hanna og vinna útboðsgögn fyrir rafvæðingu Tangabryggju í Akureyrarhöfn og vinna þannig áfram að orkuskiptum hafnarinnar. Styrkveiting ríkisstjórnarinnar gerir það að verkum að hægt verður að setja upp háspennutengingu fyrir flutningaskip, rannsóknarskip og minni skemmtiferðaskip við Tangabryggju. Framkvæmdir eru þegar hafnar.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Pétur Ólafsson, hafnarstjóri á Akureyri, undirrituðu í gær samning um styrkveitingu ríkisstjórnarinnar til rafvæðingar hafnarinnar að upphæð 43,8 milljóna króna að viðstaddri Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra á Akureyri. Á myndinni hér fyrir ofan má sjá frá vinstri, Ásthildi, Pétur og Guðmund Inga.

Kjartan Jónsson, rafmagns- og rekstrariðnfræðingur hjá Verkís, fór með hópnum um hafnarsvæðið og sagði frá þeim breytingum sem hafa þegar verið gerðar vegna orkuskipta hafnarinnar og þeim sem framundan eru. Vinna vegna breytinganna af starfsfólki Verkís á Akureyri.

Styrkurinn er hluti af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Alls fara 210 milljónir í rafvæðingu tíu hafna um allt land.

Með raftengingunni dregur úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá skipum í Akureyrarhöfn, sem geta þá tengst rafmagni í landi í stað þess að brenna olíu. Um leið dregur úr hljóðmengun frá skipsvélum og rafstöðvum um borð.

Verkís hefur komið að hönnun og gerð útboðsgagna fyrir lagnir, veituhús, rafmagns og vatnsbrunna vegna lengingar á Tangabryggju. Í þessari vinnu var gert ráð fyrir lagnaleiðum og plássi fyrir háspennutengingar.

Verkís mun í framhaldinu fara í hönnun og gerð útboðsgagna fyrir rafvæðingu hafnarinnar þar sem settir verða staðlaðir 350A lágspennutenglar með spennu og tíðnibreyti þannig að hægt sé að bjóða stærri fiskiskipum, fraktskipum, rannsóknarskipum og minni skemmtiferðaskipum möguleikann á landtengingu. Einnig verður skoðuð þörf og kostnaður við háspennutengingu á hafnarbakkanum.

Frétt RÚV: Segja orkuskipti í Akureyrarhöfn mikil gleðitíðindi

Um þjónustu Verkís á sviði landtenginga 

Heimsmarkmið

Skrifað undir vegna styrks til Akureyrarhafna vegna orkuskipta
Skrifað undir vegna styrks til Akureyrarhafna vegna orkuskipta