24/06/2022

Verkís styrkt til að kanna beina notkun jarðhita í Djíbútí

Samningur Heimsmarkmið
Frá vinstri: Ljósmynd: Kjartan Due Nielsen, verkefnastjóri nýsköpunar, Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins og Egill Viðarsson, framkvæmdastjóri Verkís. 

Verkís hefur hlotið fjögurra milljóna króna styrk úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarsamvinnu til að kanna beina notkun jarðhita í Djíbuti. Markmið sjóðsins er að styðja við íslensk fyrirtæki sem vilja vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun gegnum samstarfsverkefni í þróunarlöndum.

Verkís hyggst kanna með forhagkvæmnisathugun hugsanlega beina notkun jarðhita við Assal vatn í Djíbuti og veita leiðbeiningar um næstu skref á þróun verkefninsins. Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins og Egill Viðarsson, framkvæmdastjóri Verkís, undirrituðu samnings þess efnis á miðvikudaginn.

Egill segir að með verkefninu muni fyrirtækið geta greint hvernig auka megi tækifæri til atvinnustarfsemi og sjálfbærrar nýtingar endurnýjanlegra auðlinda, á borð við jarðhita, í einu fátækasta landi Afríku.

Litið er á verkefnið sem tækifæri til að koma af stað uppbyggingu á atvinnustarfsemi sem tengist jarðhita á svæðinu og sýna enn frekar fram á gildi slíkra verkefna fyrir lýðveldið Djíbuti. Jafnframt mun skýrslan veita leiðbeiningar í samræmi við alþjóðlegar bestu starfsvenjur varðandi sjálfbæra nýtingu jarðhitaauðlinda og benda á hvernig efla megi jafnrétti kynjanna í tilgreindum verkefnum.

Verkefnið verður unnið fyrir The Djiboutian Office of Geothermal Development (ODDEG), ríkisstofnun í Djíbuti, sem sér um að stuðla að uppbyggingu jarðhitaauðlinda og þróa jarðvarmaverkefni sem miða að því að bæta lífsgæði þjóðarinnar með því að leggja sitt af mörkum til að auka framleiðslugetu jarðvarma, draga úr olíuinnflutningi og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Verkefnið gerir ODDEG kleift að efla starfsemi sína. Verkís hefur áður tekið þátt í verkefnum í landinu og þekkir vel til aðstæðna það hvað varðar orkuöryggi, jafnréttismál og fátækt. Rannsóknir á orkuauðlindum síðustu áratugi hafa leitt í ljós að þar eru til staðar tækifæri til að vinna jarðvarma en enn hefur ekki tekist að auka jarðhitanýtingu.

„Það er afar ánægjulegt að sjá íslensk fyrirtæki tefla fram hugviti, sérþekkingu og fjármagni til að styðja við sjálfbæra þróun, aukna hagsæld og atvinnutækifæri í fátækustu og stríðshrjáðustu löndum heims. Íslenskt atvinnulíf hefur heilmikið fram að færa þegar kemur að þróunarsamvinnu, eins og þessi verkefni sýna svo glöggt,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra við tilefnið.

Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri lýsti við undirritun samninganna mikilli ánægju með metnaðarfull og fjölbreytt verkefni sem sýndu vel hvernig íslensk stjórnvöld og íslensk fyrirtæki gætu lagt sitt lóð á vogarskálarnar við framgang heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna gegnum þróunarsamvinnuverkefni.

Heimsmarkmið

Samningur Heimsmarkmið
Frá vinstri: Ljósmynd: Kjartan Due Nielsen, verkefnastjóri nýsköpunar, Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins og Egill Viðarsson, framkvæmdastjóri Verkís.