03/04/2019

Verkís tekur þátt í Snow 2019

Verkfræðingafélag Íslands stendur að ráðstefnunni Snow 2019 sem ber yfirskriftina „International Symposium in Mitigation Measures against Snow Avalanches and other Rapid Gravity Mass Flows“

Starfsfólk Verkís flytur tvö erindi á ráðstefnunni og mun það einnig kynna þátt fyrirtækisins í snjóflóðavörnum á Íslandi síðastliðin þrjátíu ár. 

Kristín Martha Hákonardóttir, byggingarverkfræðingur og straumfræðingur á Orkusviði Verkís, flytur erindið The design of slushflow barriers: Laboratory experiments. Þar mun hún kynna meginniðurstöður rannsókna á vörnum gegn krapaflóðum í Stekkagili á Patreksfirði. 

Hafþór Örn Pétursson, vélaverkfræðingur á Orkusviði Verkís, og Kristín Martha flytja erindið Use of RAMMS Avalanche and OpenFOAM to simulate the interaction of avalanches and slush flows with dam. Í erindinu munu þau fjalla um niðurstöður úr
rannsókn þar sem notast var við númerísk straumfræðilíkön við hönnun á
varnarmannvirkjum.

Ljósmynd: Umfangsmikil snjóflóðavarnarvirki hafa verið reist á Siglufirði á síðustu rúmum tveimur áratugum. 

Unnt að verjast krapaflóðum með keilum

Rætt var við Kristínu Mörthu í Morgunblaðinu í gær um helstu niðurstöður rannsóknarinnar sem hún fjallar um í erindi sínu, sem og ráðstefnuna sjálfa. 

Gerðar voru líkanatilraunir í húsnæði Vegagerðarinnar í Vesturvör í Kópavogi  vegna hönnunar slíkra varnarmannvirkja á Patreksfirði og á Bíldudal. Hermt var eftir krapaflóðum sem sprungið gætu fram og fallið niður brattar hlíðar víða á Íslandi í kjölfar leysinga.

Meginniðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á að unnt sé að verjast slíkum flóðum ofan byggðar á árangursríkan hátt með keilum ofan þvergarðs, til að brjóta flóðið upp. Verkefnið er enn á hönnunarstigi og kynningar á endurskoðuðum varnartillögum í Vesturbyggð hafa ekki farið fram. Rannsóknir og tilraunir vegna varna gegn krapaflóðum hafa staðið síðustu ár. 

Kristín Martha sagði í samtali við Morgunblaðið að þvergarðurinn þjóni einnig sem snjóflóðavörn, því þurr snjóflóð geti líka fallið úr upptakasvæði ofarlega í Stekkagili. Keilur ofan þvergarðarins brjóti krapaflauminn og þvergarðurinn stöðvi síðan krapaflóðið. Styrkt op með stálgrindum verði á honum til að hleypa vatnselg í gegn. Virkni varnargarða gegn krapaflóðum sé önnur en gegn þurrum snjóflóðum. 

Önnur leið til að verjast krapaflóðum gæti verið að hanna þvergarðinn úr stórgrýti eins og í brimvarnargörðum þannig að krapinn gæti gengið inn í garðinn og fyrsta höggið yrði þannig dempað. 

Verkefnið við Gilsbakkagil á Bíldudal er skemmra á veg komið. Þar er miðað við minni krapaflóð og að nota annað hvort grjót eða keilur ofan þvergarðs. 

Hér má lesa um þjónustu okkar á sviði ofanflóðavarna. 

Siglufjörður snjóflóðavarnir
siglufjordur