Verkís tók þátt í ráðstefnu um snjótækni og snjóflóðavarnir
Gísli S. Pétursson, vatnsauðlindaverkfræðingur hjá Verkís, sótti International Snow Science Workshop (ISSW), sem haldin var í Tromsø, Noregi 23.-29. september sl. ISSW stuðlar að þverfaglegum skoðanaskiptum og reynslumiðlun þar sem snjóvísindamenn, sérfræðingar og hagsmunaaðilar koma saman til að fjalla um nýjustu þróunina í snjófræðum og snjóflóðavörnum. Ráðstefnan, sem dregur að þátttakendur víðsvegar að úr heiminum, fylgir mottóinu „Samruni kenningar og framkvæmdar.“
Verkís kynnti tvær greinar á ráðstefnunni, tvo postera og hélt Kristín Martha Hákonardóttir, snjóflóðaverkfræðingur, erindi um aðra greinina. Erindi hennar bar titilinn „Stopping slush flows: Small-scale laboratory experiments and full scale numerical simulations“, þar sem hún fjallaði um smáskala líkantilraunir og líkanhermanir í fullum skala fyrir krapaflóðavarnir. Að greininni komu einnig Hafþór Örn Pétursson, vélaverkfræðingur, Reynir Leví Guðmundsson, vélaverkfræðingur, og Áki Thoroddsen, landfræðingur. Reynir og Áki starfa enn hjá Verkís.
Hin grein Verkís fjallaði um flóðin sem féllu á varnargarða á Flateyri í janúar 2020 og áhrif iðufalds sem fór yfir varnargarðinn. Hún bar titilinn „Loading on structures from fluidized avalanche fronts overflowing deflecting dams at Flateyri, Iceland, January 2020“ Ragnar Lárusson, straumfræðingur, og Gunnlaugur Pétursson, vélaverkfræðingur, sem báðir starfa hjá Verkís, voru meðhöfundar á greininni.
ISSW er vettvangur fyrir beint samtal á milli sérfræðinga og snjóvísindamanna, og er Verkís stolt af framlagi sínu til ráðstefnunnar. Verkís leggur sitt af mörkum til að auka skilning og þróa öruggari lausnir fyrir samfélög sem standa frammi fyrir snjóflóðahættu.