14/06/2023

Verkís tók þátt í samstarfsráðstefnu í Póllandi

Þorleikur Jóhannesson, vélaverkfræðingur á Orku- og iðnaðarsviði Verkís, hélt erindi fyrir hönd fyrirtækisins.

Tveir starfsmenn Verkís tóku þátt í samstarfsráðstefnu á milli Póllands og Íslands í Varsjá í dag. Á ráðstefnunni var fjallað um jarðhita, orkuskipti, kolefnisföngun og geymslu. Þorleikur Jóhannesson, vélaverkfræðingur á Orku- og iðnaðarsviði Verkís, hélt erindi fyrir hönd fyrirtækisins þar sem hann fjallaði um reynslu Verkís á sviði jarðvarma og þá ráðgjöf sem fyrirtækið veitir, bæði á Íslandi og erlendis.

Verkís hefur komið að nokkrum verkefnum í Póllandi frá árinu 2009 sem snúa að hitaveitu, jarðhitanýtingu og sjálfbærum lausnum. Þannig hefur Verkís m.a. sinnt vettvangsheimsóknum, mati á hagkvæmni, áreiðanleikakönnunum og þjálfun starfsmanna. Mörg verkefnanna koma til vegna styrkja úr Uppbyggingarsjóði EES.

Þorleikur sagði m.a. frá samstarfi Verkís við bæinn Gryfino í Póllandi en verkefnið snýst um innleiðingu á hugmyndafræði blágrænna ofanvatnslausna í Gryfino til að gera bæinn betur í stakk búinn til að takast á við neikvæð áhrif loftslagsbreytinga, auka vitund almennings á málefninu og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Tilgangur samstarfsráðstefnunnar var að fjalla um og kanna ýmsa möguleika og hagsmuni á auknu samstarfi Póllands og Íslands á sviði jarðhita, endurnýjanlegrar orku, auknu orkuöryggi, auk þess að beina sjónum að ýmsum tækifærum varðandi orkuskipti, vetni og CCS.

Ráðstefnunni var einnig ætlað að stuðla minni mengun og losun koltvísýrings, sem er mikilvægt til að draga úr loftslagsbreytingum, í samræmi við orku-, umhverfis- og loftslagsstyrkjaáætlunina í Póllandi á vegum Uppbyggingasjóðs EES.

Heimsmarkmið

Þorleikur Jóhannesson, vélaverkfræðingur á Orku- og iðnaðarsviði Verkís, hélt erindi fyrir hönd fyrirtækisins.