10/10/2023

Verkís veitir HSSR styrk til drónakaupa

Verkís veitti á dögunum Hjálparsveit skáta í Reykjavík (HSSR) styrk til þess að festa kaup á einum fullkomnasta flygildi, eða dróna, sem völ er á til leitar, í dag. Flygildið er af gerðinni DJI Matrice M350 og er sérstaklega gert með þarfir björgunarsveita í huga. Flygildið þolir meiri rigningu, meiri vind og meiri kulda en áður hefur þekkst og er sveitin því einstaklega vel í stakk búin til leitar, í nánast öllum veðrum (að auki þolir flygildið líka meiri hita en önnur flygildi, en á það sjaldnar samt hér á landi).

Flygildið er búið góðri myndavél, með um 20 földum aðdrætti á linsu, hita- og næturmyndavél, auk öflugs ljóskastara sem bæði nýtist til leitar og sem vinnuljós fyrir björgunarfólk, að næturlagi. Um leið var fjárfest í auka rafhlöðum, svo hægt sé að hafa flygildið í vinnu eins lengi og þurfa þykir og einungis þarf að lenda til að skipta um rafhlöður og svo hleðslustöð sem sér um að hlaða og viðhalda hleðslu í öllum rafhlöðunum.

HSSR sagði við tilefnið að þau væru í skýjunum (bókstaflega) með nýja flygildið og þau vita að það mun koma að góðum notum við leit og björgun á komandi mánuðum og árum. Þau þakka kærlega fyrir þann velvilja og hlýhug sem Verkís hefur sýnt þeim í gegnum tíðina og fyrir þetta myndarlega framlag til þessa verkefnis

Heimsmarkmið