12/12/2023

Verkís veitir styrki

Frá vinstri: Nadía Ýr Emilsdóttir frá Rauða krossinum, Guðmundur Ingi Gunnarsson frá UNICEF, Kristín Ólafsdóttir frá Hjálparstarfi kirkjunnar, Egill Viðarsson, framkvæmdarstjóri Verkís og Snæbjörn Jónsson, stjórnarformaður Verkís

Í dag afhentu Egill Viðarsson, framkvæmdarstjóri Verkís og Snæbjörn Jónsson, stjórnarformaður Verkís, styrki til Rauða krossins, Hjálparstarfs kirkjunnar og UNICEF. Verkís ákvað að veita þessum þremur aðilum styrk til áframhaldandi góðra verka.

UNICEF á Íslandi er íslensk landsnefnd Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna og er leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum. Þau berjast fyrir réttindum allra barna og sinna bæði langtímauppbyggingu og neyðaraðstoð. UNICEF eru á vettvangi í yfir 190 löndum og hafa að leiðarljósi að börn njóti velferðar – hvar sem þau er að finna.

Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna fæðast öll börn með ófrávíkjanleg réttindi. Hins vegar fá ekki öll börn notið þeirra. Þessu vilja UNICEF breyta og trúa því að heilbrigð barnæska og mannsæmandi líf séu réttur allra barna.

Hjálparstarf kirkjunnar er sjálfseignarstofnun sem sinnir mannúðar- og hjálparstarfi í nafni þjóðkirkjunnar. Sem kirkjutengd stofnun nýtur Hjálparstarfið þeirrar sérstöðu að byggja á grasrótarstarfi í nærsamfélaginu en meginmarkmið eru bætt lífskjör þeirra sem búa við fátækt og að mannréttindi séu virt.
Í starfinu felst þróunarsamvinna og mannúðaraðstoð á alþjóðavettvangi, aðstoð við fólk í félagslegri neyð á Íslandi, fjáröflun og fræðsla um starfið, gildi þróunarsamvinnu og mannúðar- og mannréttindamál.

Alþjóðlegt hjálparstarf Rauða krossins á Íslandi nær á hverju ári til þúsunda þolenda hamfara, ófriðar og örbirgðar um allan heim. Rauði krossinn á Íslandi gegnir stoðhlutverki við stjórnvöld á sviði mannúðarmála, líkt og önnur landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans gera hvert í sínu landi. Samtakamáttur, stuðningur, sjálfboðið starf og gagnkvæmur skilningur er leiðarstef fyrir farsælt starf félagsins.
Innanlandsstarf Rauða krossins er fjölbreytt, allt frá neyðarvörnum, skaðaminnkun og sálfélags stuðnings til skyndihjálpar, sölu á endurnýttum fatnaði og aðstoð við flóttafólk. Verkefnin eru framkvæmd af sjálfboðaliðum sem gera starf Rauða krossins um land allt mögulegt.

 

Frá vinstri: Nadía Ýr Emilsdóttir frá Rauða krossinum, Guðmundur Ingi Gunnarsson frá UNICEF, Kristín Ólafsdóttir frá Hjálparstarfi kirkjunnar, Egill Viðarsson, framkvæmdarstjóri Verkís og Snæbjörn Jónsson, stjórnarformaður Verkís