02/06/2020

Viðtal: Svavar, Lagði mikla áherslu á að mynda traust sambönd

Viðtal: Svavar
Svavar Jónatansson

Viðtal: Svavar Jónatansson fæddist árið 1931 á Hólmavík á Ströndum. Sjálfur segist hann hafa komið í heiminn eins langt frá menningunni og menntuninni og mögulegt var á Íslandi en í þorpinu gat hann aðeins lokið fullnaðarprófi, þá fjórtán ára gamall. Svavar vissi það ekki þá en síðar átti hann eftir að ljúka prófi í byggingarverkfræði í Þýskalandi, stofna Almennu verkfræðistofuna ásamt fleirum og taka þátt í að leggja grunninn að verkfræðistörfum á Keflavíkurflugvelli.

„Ég átti ekki ættingja í Reykjavík eða á Akureyri sem gátu hýst mig á meðan ég sótti skóla þar svo ég varð að bíða þangað til að ég varð 16 ára til að fara í frekara nám. Þá fór ég í Héraðsskólann á Laugarvatni og var þar af leiðandi tiltölulega eldri en félagar mínir sem voru komnir jafn langt í náminu,“ segir Svavar.

Hann hóf framhaldsnám á Laugarvatni en lauk síðan stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1953, þá orðinn 21 árs. Fyrst um sinn fór hann í Háskóla Íslands og lagði stund á verkfræði í eitt ár en hélt síðan til Þýskalands þar sem hann lærði byggingarverkfræði með áherslu á virkjanafræði. „Ég byrjaði aðeins hérna heima en mér líkaði ekki verkfræðikennslan í HÍ. Maður sá lítið af verkfræði, þetta voru einkum eðlisfræðingar og stærðfræðingar sem kenndu. Þeir vissu lítið hvað verkfræði var,“ segir Svavar.

Leiðin lá til suðurhluta Þýskalands, til borgarinnar Karlsruhe, þar sem enn í dag er kennd verkfræði, og segist Svavar hafa verið ánægður þar. Hann lauk náminu með prófverkefni sem snerist um virkjun Jökulsár á Fjöllum (Dettifoss) og hafði prófessorinn mikinn áhuga á að kynnast vatnsmesta fossi Evrópu. Á þessum tíma hafði þessi virkjunarmöguleiki lítið verið skoðaður en ekki var búið að gera neinar rannsóknir á honum.

„Ég talaði við Sigurð Þórarinsson jarðfræðing og fékk upplýsingar hjá honum. Ég gerði mér grein fyrir að það væru mörg óvissuatriði sem engin leið væri að fara í af minni hálfu, í sambandi við prófið. En það skipti ekki máli, prófið snerist bara um að gera áætlun um einhverja virkjun, með einhverjum forsendum sem maður gaf sér að hluta til sjálfur,“ segir Svavar. Sigurður var náttúru-, land-, jarð-, eldfjalla og jöklafræðingur auk þess að vera prófessor við HÍ og þekkti því aðstæður betur en flestir aðrir.

Svavar starfaði hjá Almenna byggingafélaginu á meðan hann var enn í námi. „Þegar ég kom heim á sumrin vann ég hjá ABF og jafnvel áður, þegar ég var að byrja í verkfræðinámi. Þá var ég búinn að læra mælingar í HÍ, svo fórum við í námið í Karlsruhe, var stundum í þrjá mánuði í fríi og vann þá heima,“ segir hann.

Á sumrin var hann til dæmis ásamt öðrum á Keflavíkurflugvelli við mælingar fyrir flugskýli. „Við kunnum á mælitækin og gátum sett út punkta fyrir undirstöðurnar. Ég held að Wild hafi verið komið þá, þetta voru mestu og bestu mælitækin sem voru til í heiminum þá, þýsk framleiðsla. Alla tíð var Wild númer eitt,“ segir Svavar.

Almenna byggingafélagið átti Bretunum margt að þakka

Þegar Svavar hafði lokið verkfræðiprófi í Karlsruhe sneri hann aftur til Íslands árið 1959, þá tæplega þrítugur. Í hans huga kom ekkert annað til greina en að koma aftur heim og hóf hann strax störf á verkfræðistofu Almenna byggingafélagsins.

Almenna byggingafélagið hf. (ABF) var stofnað árið 1941 og rak umfangsmikla verktaka- og ráðgjafastarfssemi um 30 ára skeið. ABF kom mikið við sögu þeirrar uppbyggingar og iðnvæðingar sem átti sér stað í landinu á starfsárum þess.

Á þessum tíma var Almenna byggingarfélagið stærsti verktaki landsins auk þess að reka verkfræðistofu. Eftir byggingu Búrfellsvirkjunar varð félagið aftur á móti gjaldþrota en það hafði ekki tök á að auka hlutaféð eins og þurfti. Það var á þeim tímapunkti sem Almenna verkfræðistofan varð til, árið 1971. Þá keyptu Svavar og átta aðrir verkfræðingar ABF verkfræðistofu Almenna byggingafélagsins. Svavar varð framkvæmdastjóri og sá um verkefnaöflun og almenna framkvæmdastjórn.

Hann segir að Almenna byggingafélagið hafi átt Bretum á vissan hátt margt að þakka, en fyrirtækið var stofnað vegna þeirrar miklu vinnu sem skapaðist vegna dvalar þeirra hér á landi á hernámsárunum. Seinna kom bandaríski herinn til sögunnar. Félagið vann mikið fyrir Breta á Reykjavíkurflugvelli og sinnti ýmsu í sambandi við byggingu á hermannabröggunum og gatnagerð í ýmsum hverfum.

„Síðan komust þeir í samband við Bandaríkjamennina á vellinum og urðu hluthafar í Sameinuðum verktökum. Almenna byggingafélagið náði sér vel á strik og var með góð tengsl í gegnum pólitíkina. Hluthafarnir voru flestir Sjálfstæðismenn. Við urðum þó ekkert vör við þetta, stjórnmál komu ekkert að okkar störfum hjá ABF,“ segir Svavar.

Eftir að Svavar kom heim úr námi vann hann meðal annars við Sogsvirkjun neðan Þingvallavatns en þá var verið að ljúka við Steingrímsstöð í Efra Sogi. „Það fór nú dálítið illa, Almenna byggingafélagið var með verkefnið ásamt Dönunum. Það brast stífla hjá þeim og skaði varð mikill af því,“ rifjar Svavar upp, en það var áður en hann hóf störf þar.

Þegar Svavar er beðinn um að rifja upp eftirminnileg verkefni frá starfsævinni stendur ekki á svörum. Hann hefur komið víða við og telur upp ýmis mannvirki sem flestir þekkja ágætlega úr lífi og starfi.

Hann sinnti rannsóknum í Búrfelli, í Kísiliðjunni í Mývatnssveit og rannsóknum og mælingum fyrir Sundahöfn en ABF og síðar Almenna verkfræðistofan hannaði mannvirki hafnarinnar.

„Þá má nefna Sementsverksmiðjuna á Akranesi, en við vorum með hana alla tíð. Svo Borgarsjúkrahúsið og Vesturlandsveginn upp að Korpu. Þetta var allt á vegum Almenna byggingafélagsins. Og kísilgúrverksmiðjan við Mývatn og Seðlabankann. Svo byrjuðum við í gömlu flugstöðinni í Keflavík, það þyrfti svo miklu að breyta þar þegar flug til útlanda hófst fyrir alvöru. Það var svo mikið verk að gjörbreyta þeirri gömlu byggingu, koma upp verslunum og svoleiðis. Svo var það útvarpshúsið á RÚV reitnum og Búrfellsvirkjun sem verkfræðingar ABF unnu við með verktakanum,“ telur Svavar upp.

„Einnig má nefna Sundahöfn, það var alltaf verið að bæta við þar. Ýmsar lagfæringar í gömlu höfninni, járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga og Helguvíkurhöfn. Samkeppnin var aðallega við Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen, þeir voru stærstir og við næstir. Svo var Fjarhitun með hitaveituna.“

Þroskuðust af samstarfinu við Bandaríkjamenn

Þegar talið berst að samkeppnisaðilunum leggur Svavar áherslu á hversu miklu máli hafi skipt að mynda sambönd og leggja sig fram við að viðhalda þeim við öflun verkefna. Í því samhengi nefnir hann Keflavíkurflugvöll og önnur verkefni sem tengdust NATO.

„Ég var reyndar eiginlega einn af upphafsmönnum í ráðgjafaverkfræði á Keflavíkurflugvelli, fyrir Flugmálastjórn við flugstöðin, flughlöðin og fleira. Á þessum tíma byggðist allt þetta svo mikið á því að ná samböndum, vera í góðum samböndum við menn og láta sambandið aldrei detta niður, hitta þá sem oftast og spjalla, líka um daginn og veginn. Skapaðist smátt og smátt traust á mér og okkur. Þeir vissu hvar þeir höfðu okkur. Þetta var þá, ekki eins og þetta er í dag. Nú er allt í útboðum. Þetta er nú orðið dálítið hæpið með útboðin. Þessi sambönd sem við mynduðum, þau hafa haldið lengi. Við vorum fyrst með gömlu flugstöðina í Keflavík og síðan Flugstöðina ásamt ýmsu sem snerti bandaríska sjóherinn,“ segir Svavar.

Vinna við flugstöðina í Keflavík fól í sér töluverð samskipti við Bandaríkin og Kanada og ferðir erlendis.

„Við þroskuðumst mikið á því, við vorum þá að vinna fyrir Nató og með amerískum ráðgjöfum. Það var ágætt að vinna með þeim enda gerðu þeir sér grein fyrir að þeir þurftu á okkar aðstoð að halda því við höfðum staðarþekkinguna. Þetta gekk ágætlega, aldrei komu upp vandamál sem erfiðleikum ollu. Þeir voru með sína verkfræðinga en við unnum þetta saman. Við skiptum með okkur verkum eftir því hver staðan var hverju sinni,“ rifjar Svavar upp og viðurkennir að þetta hafi verið spennandi samstarf og lærdómsríkt.

„Flugstöðin í Keflavík var hönnuð af bandarískum arkitekt en húsameistari ríkisins, Garðar Halldórsson, var reyndar líka með frá upphafi til enda. Svo skiptum við verkum á milli okkar. Við hönnuðum burðarþol og svo framvegis og vorum með lagnirnar líka. Þeir voru með yfirstjórnina og samskipti við Nato.“

Vegna þessara verkefna þurfti Svavar og fleiri hjá Almennu verkfræðistofunni að ferðast til Norfolk og Washington. Sjálfur fór Svavar nokkra tugi ferða til Bandaríkjanna vegna þessara verkefna á þessum tíma.

Hvatti konur til dáða og vildi sameiningu

Stofnendur Almennu verkfræðistofunnar störfuðu allir hjá Almenna byggingafélaginu. Fyrst um sinn einskorðaðist ráðgjafastarfsemi AV við byggingarverkfræðileg viðfangsefni, áætlanagerð og möt. Árið 1982 var fyrsti vélaverkfræðingurinn ráðinn til fyrirtækisins og eftir það var hönnun lagna- og loftræsikerfa og vélbúnaðar vaxandi þáttur í starfseminni, svo og ráðgjöf varðandi hreinsun fráveituvatns og umhverfismál almennt.

Enn frekari styrking á starfsemi fyrirtækisins í umhverfismálum varð árið 1999 þegar fyrsti jarðfræðingurinn var ráðinn til AV. Frá þeim tíma hóf fyrirtækið að vinna mat á umhverfisáhrifum, alhliða jarðfræðiráðgjöf og kortagerð

Til að byrja með voru hluthafarnir í Almennu verkfræðistofunni níu og starfmennirnir fimmtán alls. Allir verkfræðingarnir voru byggingarverkfræðingar og allir voru þeir karlmenn. Konurnar sinntu störfum bókara, gjaldkera og teiknara.

„Konum fjölgaði mjög hægt hjá okkur. Við reyndum að fá konur en af einhverri ástæðu komu þær ekki mikið til okkar. Þær komu stundum í sumarvinnu og við hvöttum þær til að halda áfram og koma seinna. Sumar komu en aðrar ekki,“ segir Svavar.

Hann segist hafa gert nokkuð af því að hvetja konur, sem smá saman komu til starfa hjá fyrirtækinu, til að koma í stjórnunarstörf, inn í hluthafahópinn og í stjórn. Hann segir að hann hafi ekki fengið nógu góðar undirtektir, þær hafi ekki haft áhuga á því að stefna í þessa átt, að því að honum fannst, þrátt fyrir hvatningu af hálfu hans og annarra hjá Almennu verkfræðistofunni.

„Var þetta virkilega svona hjá Almennu verkfræðistofunni á þessum tíma? Vonum við svona kvenfjandlegir?“ veltir Svavar fyrir sér.

Almenna byggingafélagið byggði Borgartún 9 þar sem Vegagerðin er til húsa í dag en seldi síðar húsið og færði sig um set.

„Við vorum ekki lengi í Borgartúninu, því miður seldu þeir þetta hús og byggðu við Suðurlandsbraut 32. Þetta voru slæm mistök sem þeir hjá Almenna byggingarfélaginu gerðu, þetta var mikið hús og vel staðsett. Það endaði allt saman með skelfingu þegar Búrfell varð gjaldþrota,“ segir Svavar.

Eigendur Almennu verkfræðistofunnar hófu fljótlega leit að húsnæði og komu sér fyrir í Fellsmúla, þar sem stofan var til húsa þar til hún sameinaðist Verkís.

„Við keyptum í Hreyfilshúsinu við Miklubraut, í Fellsmúla. Vorum þar með tvær, þrjár hæðir. Þetta var orðið býsna fjölmennt. Til að byrja með vorum við með tæplega tuttugu manns í starfi en svo fer upp í 40 til 50 þegar mest var, þegar Járnblendið var í gangi. Það voru 10 til 15 manns þar. Voru þar þangað til að sameinast var Verkís. Fyrst í Ármúla að hluta til en leigðu líka í Ofanleiti en svo var Ofanleitið tekið yfir,“ segir Svavar.

Svavar lauk starfsævinni hjá Almennu verkfræðistofunni árið 2004 og upplifði því ekki þegar stofan sameinaðist Verkís í apríl 2013.

„Við vissum af þessu, ég var áhugamaður um að sameinast öðrum stofum og var dálítið í viðræðum við aðra en mínir félagar voru nokkuð sérvitrir og vildu ekki sameiningu við aðra. Svona var þetta. Þú togar ekki menn með þér í samstarf við aðra ef þeir eru á móti því. Þetta tók dálítið langan tíma. Það var ekki fyrr en Helgi og þeir á VST komu að málunum að þetta hófst að lokum,“ segir Svavar og þar með lýkur spjallinu.

Verkís rekur uppruna sinn til ársins 1932. Verkís var stofnað 21. nóvember 2008 en þá runnu saman fjögur fyrirtæki: VST-Rafteikning hf., Fjarhitun hf., Fjölhönnun ehf. og RT ehf. – Rafagnatækni. Áður höfðu VST – Rafteikning sameinast úr Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen, sem var elsta verkfræðistofa landsins og Rafteikningu hf. Í apríl 2013 sameinuðust Verkís og Almenna verkfræðistofan undir nafni Verkís. 

Viðtalið var tekið og unnið af Láru Höllu Sigurðardóttur, starfsmanni í kynningarmálum hjá Verkís, með það að markmiði að varðveita sögu fyrirtækisins og safna saman fróðleiksmolum frá fyrri tíð.

Viðtal: Sjómaðurinn sem varð rafmagnsverkfræðingur og borgarstjóri

Viðtal: Sigþór lagði hönd á plóg við orkuskipti heimilanna 

Viðtal: Svavar
Svavar Jónatansson