31/05/2022

Viðtal við Önnu Maríu í Skessuhorni

Starfsfólk Verkís á Akranesi
Frá vinstri: Sigurgeir Fannar Guðmundsson, Anna María Þráinsdóttir og Bragi Þór Sigurdórsson, starfsfólk Verkís á Akranesi. Arnór Már Guðmundsson var ekki á staðnum þegar myndin var tekin.

Verkís rekur sex útibú á landsbyggðinni og undir hverju útibúi eru oft fleiri starfsstöðvar en þær eru alls tólf talsins. Anna María Þráinsdóttir byggingaverkfræðingur tók við sem útibússtjóri Verkís á Vesturlandi í nóvember árið 2019 en starfsemin nær til landshlutans alls og lýtur einkum að eftirliti með byggingaframkvæmdum, hvers kyns hönnun og annarri almennri verkfræðiráðgjöf. Átta starfsmenn Verkís starfa í landshlutanum; fimm á Akranesi og þrír í Borgarnesi. Útibúið er þannig í reynd starfrækt á tveimur stöðum.

Stórt verkefni í Norðuráli

Anna María segir að viðskiptavinirnir kunni vel að meta hversu fljótir starfsmenn hennar eru á staðinn þegar á þarf að halda. „Þeim finnst það mjög þægilegt, þurfa þá ekki að bíða eftir aðilum úr Reykjavík og það er mikill kostur hvað við erum nálægt.“ Spurð hvernig henni finnst hafa gengið í hennar stjórnunartíð segir Anna María: „Mjög vel, það er búið að fjölga hjá okkur frá því ég byrjaði og erum við alltaf að horfa á það að reyna að bæta við okkur en það er alltaf háð verkefnum. Við erum með stórt verkefni til þriggja ára í Norðuráli og það er einn starfsmaður frá okkur þar með starfsstöð. Þar er verið að byggja nýjan steypuskála og við sjáum um hönnun og eftirlit á honum og verkefnastjórnun í heild á verkinu.“ Við höfum einnig undanfarið ár komið að stórum verkefnum á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, þar sem deildar á Akranesi voru endurnýjaðar og nýtt liðskiptasetur er í framkvæmd. Að auki komum við að verkfræðihönnun fyrir nýja leikskólann að Asparskógum.

Anna María segir einnig að það skipti miklu máli að hafa starfsstöðvar og útibú fyrir samfélögin úti á landi. „Það er mikilvægur valkostur fyrir starfsfólk, það eru meiri möguleikar að vinna frá sinni heimabyggð úti á landi. Fólk sem hefur alist upp úti á landi getur farið til baka í sína heimabyggð og átt möguleika á flottri vinnu.“ Sjálf er Anna María alin upp á Akranesi, lauk BS prófi í tæknifræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2011 og meistaraprófi í byggingaverkfræði með áherslu á framkvæmdastjórnun tveimur árum síðar. Hún starfaði frá því hún byrjaði að vinna sem verkfræðingur mikið við eftirlit og meðal annars við eftirlit stækkun flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Hún segir það hafa skipt sig miklu máli að geta flutt aftur heim og fengið starf í tengslum við sína menntun í sinni heimabyggð.

Starfsfólk Verkís í Borgarnesi
Ljósmynd/Skessuhorn. Frá vinstri: Ulla Pedersen, Jökull Helgason og Soffía Anna Sveinsdóttir starfsfólk Verkís í Borgarnesi.

Markmiðið að fjölga verkefnum

Í byrjun apríl á þessu ári flutti Verkís starfsemi sína á Smiðjuvelli 32 á Akransei en síðustu ár hefur hún verið á Stillholti 16-18. Ástæðuna segir Anna María aðallega hafa verið vegna loftgæðavandamála og þeim líði afar vel á nýja staðnum, gott loft sé í húsinu og góður andi. En hvernig sér Anna María næstu ár fyrir sér?

„Ég sé fram á það að við eigum eftir að stækka og reyna að breiða meira úr okkur, bæði hér og út um allt land. Við viljum vera á sem flestum stöðum til að vera sem næst kúnnunum og viljum geta þjónað allri landsbyggðinni. Heimsfaraldurinn hafði þau áhrif hjá okkur að verkefnin jukust hjá okkur. Ríkið og sveitarfélögin fóru að gefa í og við sjáum ekki fram á að það sé eitthvað að minnka. Markmiðið er að fjölga verkefnum og helst viljum við geta fjölgað starfsfólki hér í landshlutanum með tímanum. Við höfum mikinn metnað fyrir því,“ segir Anna María Þráinsdóttir að endingu.

Verkfræðistofan Verkís fagnar 90 ára afmæli – Skessuhorn

Viðtalið var tekið í tilefni af 90 ára afmæli Verkís og birtist í prentútgáfu Skessuhorns og í vefútgáfu miðilsins

Heimsmarkmið

Starfsfólk Verkís á Akranesi
Frá vinstri: Sigurgeir Fannar Guðmundsson, Anna María Þráinsdóttir og Bragi Þór Sigurdórsson, starfsfólk Verkís á Akranesi. Arnór Már Guðmundsson var ekki á staðnum þegar myndin var tekin.