Vinna hafin við stækkun Svartsengis
Vinna hafin við stækkun Svartsengis. HS Orka hefur hafið vinnu við stækkun orkuversins í Svartsengi. Verkís sér um alla hönnun vegna stækkunarinnar, m.a. hönnun á byggingavirkjum og húskerfum stöðvarhúss og stjórnbyggingar, hönnun vélbúnaðar, rafbúnaðar og stjórnbúnaðar orkuversins, sem og ráðgjöf við innkaup á öðrum tilheyrandi kerfum og búnaði.
Í orkuverinu verður ein framleiðslueining sem mun koma í stað nokkurra eldri véla og búnaðar. Með því að nýta gufu sem áður fór í eldri vélar eykst framleiðslugetan og viðhalds- og framleiðslukostnaður lækkar. Þá er gert ráð fyrir því að með stækkuninni verði hægt að ná betri nýtingu úr auðlindinni í Svartsengi í framtíðinni. Eftir stækkun mun framleiðslugeta orkuversins í Svartsengi verða 85 MW.
Öll tilskilin leyfi hafa fengist fyrir stækkuninni og búið er að taka fyrstu skóflustunguna. Verkhönnun lauk í apríl á þessu ári og nú er unnið að fullnaðarhönnun og gerð útboðsgagna. Öll hönnun og samræming milli faga fer fram í þrívíðum upplýsingalíkönum og er sýndarveruleiki m.a. nýttur til að fara yfir stöðu hönnunar.
Verkís hefur veitt ráðgjöf vegna Svartsengis frá árinu 1978.