15/05/2021

Vinna hörðum höndum að gerð varnargarða í Geldingadölum

ari-fréttir RÚV
Ari Guðmundsson, byggingarverkfræðingur hjá Verkís

Aðfaranótt föstudags hófst vinna við gerð varnargarða við gosstöðvarnar í Geldingadölum og er stefnt að því að ljúka verkinu á morgun. Görðunum er ætlað að reyna að hefta för hrauntungunnar niður í Nátthaga en þaðan er leiðin greið niður á Suðurstrandarveg með tilheyrandi tjóni á innviðum og röskun á samöngum.

Verkís hefur að undanförnu unnið að verkefni um varnir mikilvægra innviða og m.a. frumhannað varnargarðana sem nú rísa.

„Verktakar hófu vinnu um klukkan átta í morgun og héldu áfram við vestur varnargarðinn, og náðu að klára hann í rétt um fjögurra metra hæð. Þannig að hann er nokkurn veginn tilbúinn, þessi fyrsti áfangi af þeim varnargarði,“ sagði Ari Guðmundsson, byggingarverkfræðingur hjá Verkís, í kvöldfréttum Stöðvar 2 en hann stýrir framkvæmdunum.

Vestari garðurinn í Syðri Meradölum er tilbúinn og er um fjögurra metra hár. Austari garðurinn verður verður bæði lengri og hærri.

„Þeir eru báðir jafn háir þannig að við byrjum á þessum fyrsta áfanga sem er fjögurra metra hár. En það er ekkert ólíklegt að við förum hærra, kannski sex eða átta metra,“ sagði Ari einnig í samtali við Stöð 2. Hann telur að garðarnir eigi að duga til þess að varna því að hraunið renni úr nafnlausa dalnum svokallaða og niður í Nátthaga.

„Það hefur sýnt sig að hraunið getur verið meira en átta metrar fyrir aftan svona varnargarða án þess að hann bresti. Það er hörð skel á hrauninu þegar það byrjar að kólna þannig að við erum að vinna með það núna að fara upp í átta metrar núna í þessari lotu,“ sagði Ari.

Þessi aðferð, að nýta varnargarða til að stýra hraunstraumi og verja mannvirki er þekkt víða um heim þar sem eldvirkni er og voru varnargarðar m.a. reistir þegar gaus í Vestmanneyjum árið 1973. Þá hefur aðferðin einnig verið notuð með góðum árangri erlendis, m.a. á Ítalíu og Hawaii.

Frétt Vísis/Stöðvar 2: Stefna á að klára varnargarðana á morgun 
Frétt RÚV: Reyna að hemja framgang hrauns með stíflum
Frétt Vísis: Alveg þess virði og nauðsynlegt að reyna þetta
Frétt mbl.is: Leggja lokahönd á fyrri varnargarðinn

Heimsmarkmið

ari-fréttir RÚV
Ari Guðmundsson, byggingarverkfræðingur hjá Verkís