24/06/2020

Vinna við byggingu GAJA í Álfsnesi á lokastigum

Nýja flokkunarlínan tekur við lífrænum úrgangi heimila á höfuðborgarsvæðinu, hreinsar úr honum plast og málma og býr til hreinan efnisstraum sem er hæfur til vinnslu í GAJA. Þegar stöðin kemst í fullan rekstur síðar í sumar verður hætt að urða lífrænan úrgang frá heimilum á svæðinu í stað þess verða unnin úr honum gas- og jarðgerðarefni, líkt og fram kemur í frétt á vef Sorpu

Verkefnið er stórt skref í umhverfismálum á höfuðborgarsvæðinu. GAJA er í samræmi við stefnu sem sveitarfélögin hafa mótað í sameiginlegri svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2009-2020. Eftir að GAJA hefur starfsemi verður allur úrgangur sem safnað er frá heimilum á samlagssvæði SORPU unninn í stöðinni. Lífrænu efnin verða nýtt til gas- og jarðgerðar, en málmar og önnur ólífræn efni verða flokkuð vélrænt til endurnýtingar.

Meltutankar og gasblaðra 

Ístak hf. var aðalverktaki við framkvæmdina. Vinnslutækni er byggð á einkaleyfi frá Aikan Solum AS í Danmörku en stöðin var teiknuð af Batteríið Arkitektar og var verkfræðistofan Mannvit tæknilegur ráðgjafi. Heildarstærð hússins er um 12.800 m2 og mun stöðin anna allt að 35.000 tonnum af lífrænum heimilisúrgangi.

Vinnslusvæði stöðvarinnar

Markmiðið er að nýta sem best allan lífrænan úrgang sem til fellur á heimilum á höfuðborgarsvæðinu, s.s. matarleifar, gæludýraúrgang o.fl. Ársframleiðsla stöðvarinnar verður annars vegar um 3 milljónir Nm3 af metangasi, sem hægt er að nýta sem orkugjafi, t.d. sem eldsneyti á ökutæki, og hins vegar 10-12.000 tonn af jarðvegsbæti, sem hentar vel til landgræðslu. Þegar gas- og jarðgerðarstöðin verður komin í gagnið munu yfir 95% heimilisúrgangs á höfuðborgarsvæðinu fara til endurnýtingar.

Verkefni: Gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi 

Ljósmynd 1: Yfirlitsmynd af GAJA. 

Heimsmarkmið

  • Heimsmarkmið 6
  • Heimsmarkmið 15

GAJA Gas og jarðgerðarstöð í Álfsnesi yfirlitsmynd
gaja-gas-og-jardgerdarstod