Við setjum markið hátt

Verkís hefur tekið ákvörðun um að leggja áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Er það gert í kjölfar ákvörðunar um að draga fram samfélagslega ábyrgð fyrirtækisins og undirrita UN Global Compact.

Heimsmarkmiðin eru sautján talsins með 169 undirmarkmiðum. Það er óhætt að segja að starfsemi Verkís snerti að einhverju leyti á öllum sautján yfirmarkmiðunum en til að byrja með hefur verið ákveðið að leggja áherslu á heimsmarkmið 5 um jafnrétti kynjanna, heimsmarkmið 7 um sjálfbæra orku og heims­markmið 11 um sjálfbærar borgir og samfélög.

 

Heimsmarkmið 5 – Jafnrétti kynjanna


Jafnrétti kynjanna verði tryggt og staða allra kvenna og stúlkna styrkt

Það er óhætt að segja að Verkís hafi náð framúrskarandi árangri í jafnréttismálum enda fyrst verkfræðistofa hérlendis til að fá jafnlaunavottun Jafnréttisstofu. Áður hafði Verkís verið fyrst fyrirtækja til að hljóta gullmerki PwC árið 2012 og svo aftur árið 2018.

Við leggjum ríka áherslu á að starfsfólki okkar líði vel í vinnunni, fái jöfn tækifæri í atvinnulífinu og hafi tækifæri til að samræma einkalíf og atvinnu jöfnum höndum. Með stefnum okkar og skýrum siðareglum er leitast við að tryggja öllum mannréttindi og ná þannig fram kynjajafnrétti.

Þess vegna leggjum við áherslu á að eftirfarandi undirmarkmið verði í forgangi hjá Verkís:

  • 5.1 Öll mismunun gagnvart konum og stúlkum verði afnumin alls staðar.
  • 5.2 Hvers kyns ofbeldi gagnvart konum og stúlkum á opinberum vettvangi sem og í einkalífi, þar með talið mansal, kynferðisleg misneyting og misneyting af öðru tagi, verði ekki liðið og regluverk sem styður við ofbeldi afnumið.
  • 5.5 Tryggð verði virk þátttaka kvenna og jöfn tækifæri þeirra til að vera leiðandi við ákvarðanatöku á öllum sviðum stjórn- og efnahagsmála sem og á opinberum vettvangi.

 

Heimsmarkmið 7 – Sjálfbær orka

 

Tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði

Hjá Verkís starfa helstu sérfræðingar landsins í sjálfbærri orkunýtingu. Í samvinnu við atvinnulífið tekur Verkís þátt í að miðla þekkingu um jarðvarma, vatns- og vindorku, hitaveitu jafnt innanlands sem á erlendri grund. Framlag Verkís til orkunýtingarmála kemur meðal annars fram í kennslu, í hönnun og þróun orkuveita sem stuðla að minnkandi mengun, í fyrirlestrum, greinarskrifum og með sjálfstæðum rannsóknum.

Við einsetjum okkur að leggja okkar af mörkum til þeirra breytinga sem nauðsynlegar eru í því skyni að koma jörðinni okkar á braut sjálfbærni og sporna við losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.

Þess vegna leggjum við áherslu á að eftirfarandi undirmarkmið verði í forgangi hjá Verkís:

  • 7.1 Eigi síðar en árið 2030 verði nútímaleg og áreiðanleg orkuþjónusta í boði alls staðar í heiminum á viðráðanlegu verði.
  • 7.2 Eigi síðar en árið 2030 hafi hlutfall endurnýjanlegrar orku af orkugjöfum heimsins aukist verulega.
  • 7.3 Eigi síðar en árið 2030 verði orkunýting orðin helmingi betri.
  • 7.a Eigi síðar en árið 2030 verði alþjóðleg samvinna aukin í því skyni að auðvelda aðgengi að rannsóknum og tækni á sviði umhverfisvænnar orku, meðal annars endurnýjanlegrar orku, orkunýtni og háþróaðs og hreins jarðefnaeldsneytis, og ýtt undir fjárfestingu í orkugrunnvirkjum og tækni á sviði umhverfisvænnar orku.
  • 7.b Eigi síðar en árið 2030 verði innviðir styrktir og tækni nýtt í því skyni að veita öllum í þróunarlöndum, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin, smáeyríkjum og landluktum þróunarlöndum, nútímalega og sjálfbæra orkuþjónustu í samræmi við áætlanir hvers og eins í þeim efnum. 

 

Heimsmarkmið 11 – Sjálfbærar borgir og samfélag

 

Gera borgir og íbúðarsvæði örugg, sjálfbær og öllum aðgengileg

Við erum meðvituð um að ákvarðanir og starfsemi Verkís hefur undantekningarlaust áhrif á umhverfið og samfélagið í kringum okkur. Þessi áhrif má tengja við notkun fyrirtækisins á auðlindum, staðsetningu starfsemi þess, mengun og úrgangi af völdum þess og þau áhrif sem fyrirtæki hefur á náttúruleg vistsvæði.

Við hjá Verkís veitum ráðgjöf þar sem lögð er áhersla á náttúrulegar loftræsilausnir, orkusparnað, val á byggingarefnum, vistvænar samgöngur, varðveislu á vistfræðilegu gildi lóða, aðstöðu til flokkunar á sorpi og lágmörkun á mengun vegna framkvæmdar og rekstrar.

Þess vegna leggjum við áherslu á að eftirfarandi undirmarkmið verði í forgrunni hjá Verkís:

  • 11.1 Eigi síðar en árið 2030 geti allir orðið sér úti um fullnægjandi og öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði, fátækrahverfi verði endurbætt og grunnþjónusta standi öllum til boða.
  • 11.2 Eigi síðar en árið 2030 geti allir ferðast með öruggum sjálfbærum samgöngutækjum á viðráðanlegu verði á bættu vegakerfi. Lögð verði áhersla á betri almenningssamgöngur sem taka mið af fólki í viðkvæmri stöðu, konum, börnum, fötluðu fólki og öldruðum.
  • 11.4 Blásið til sóknar til þess að vernda og tryggja náttúru- og menningararfleifð heimsins.
  • 11.6 Eigi síðar en árið 2030 verði dregið úr skaðlegum umhverfisáhrifum í borgum, meðal annars með því að bæta loftgæði og meðhöndlun úrgangs.
  • 11.7 Eigi síðar en árið 2030 verði græn svæði gerð örugg og aðgengileg fyrir almenning, einkum konur og börn, aldraða og fatlað fólk.